Studia Islandica - 01.06.1993, Side 236
234
þrautin þyngri. Hjálpargögn Heiðarvígasögu hafa að sönnu
verið hvorttveggja munnlegar og skriflegar heimildir, sem
býsna erfitt er að henda reiður á, enda tala gagnrýnendur nær
eingöngu um munnmælasögur sem meginstoð höfundar við
sögusmíð sína. Menn hafa í raun og veru komist létt frá þessu
og vísað vandanum frá sér. Þar sem Heiðarvígasaga er skáld-
saga andlegrar merkingar og höfundur þiggur ekkert yrkisefni
án þess að laga það eftir eigin höfði, þá verða bönd sögunnar
við eldri ritverk ekki síst fólgin í fyrirmyndum og hugmynd-
um, sem eru miklu lausari í hendi en tengsl einstakra orða og
orðasambanda. Þessi athugasemd varðar eigi síst þær sögu-
bækur og helgu rit, sem hafa verið höfundi uppspretta lær-
dóms og lífsviðhorfa. Af þessum sökum má segja, að rann-
sókn á heimildum Heiðarvígasögu sé að verulegu leyti fólgin
í því að leggja í einelti hugarflug höfundar og greina, hvernig
það virkar. Hugmyndakerfi sögunnar kemur þá að góðum
notum. Að þessu sögðu liggur í hlutarins eðli, að hin marg-
reynda rittengslafræði hrekkur skammt, einkum sé henni
beitt eftir ströngustu reglum.
Skálmöld Sturlungaaldar hefur lagt höfundi til yrkisefni.
Það birtist í almennum atriðum, svo sem þeim að brjóta lög á
alþýðu, sitja á svikráðum, sölsa undir sig eignir manna, herja
í önnur héruð og vega menn fyrir tyllisakir. Slík þjóðfélagslýs-
ing gefur vitaskuld lítið hald til tímasetningar, því að siðleysi
gráðugrar valdastéttar er engin nýlunda. Eigi að síður þykir
mér Víga-Styrr vera hin dökka mynd Sturlungaaldar. Það er
ekki alveg út í bláinn að ætla, að Sturla Sighvatsson eigi nokk-
urn skerf í Styr, báðir eru þeir merktir nafni ófriðar, Víga-
Styrr og Víg-Sterkur, þeir vinna óhæfuverk og deyja voveif-
lega, þótt með ólíkum hætti sé. Gerðir þeirra eru víti til varn-
aðar. En hinu ber ekki að neita, að torvelt er að benda á
ákveðna einstaka samtíðarviðburði, sem ótvírætt mega teljast
beinar heimildir Heiðarvígasögu.1
1 Á það hefur verið giskað, að vísa Víga-Styrs stældi vísu Sighvats Sturluson-
ar. Ekki er óhugsandi, að frásögn Heiðarvígasögu af ólíkindalátum Hall-
dórs bónda á Mel eigi rót að rekja til Sighvats Sturlusonar. Eftir víg Víga-