Studia Islandica - 01.06.1993, Page 265
263
sóknir íslendingasagna séu skemmra á veg komnar en ætla
mætti og hugmyndir manna um þær hvíli ekki ævinlega á
traustum grunni. Viðhorf manna til sögustílsins, þróunar
sagnaritunarinnar og tímasetningar sagnanna þarfnast ræki-
legrar endurskoðunar. Ég vona, að þessar athuganir mínar á
Heiðarvígasögu hleypi nýju lífi í fræðilegar umræður um sög-
urnar.
Síðast en ekki síst legg ég áherslu á, að menn gefi miklu
meiri gaum að erindi sagna við lesendur en hingað til og leggi
sig í líma við að ganga úr skugga um merkingu ritverka. Enda
þótt ég telji friðarboðskap grunnhugmynd Heiðarvígasögu,
er ekki þar með sagt, að íslendingasögur, sem eru margar og
fjölbreytilegar, séu allar af sama toga. Tilgangur sagnanna er
vafalaust margvíslegur. Ég tel þó víst, að friðarþrá hafi verið
frumkvöðull að ritun fleiri sagna en Heiðarvígasögu einnar.
Af túlkun hennar geta menn væntanlega öðlast nokkra vitn-
eskju um eðli íslendingasagna.1
Við bókarlok er mér bæði ljúft og skylt að þakka þeim, sem hafa lagt mér
lið við samningu þessarar ritsmíðar, sem hefur farið langa og torfarna leið
frá hugmynd til bókar. Hugmyndir þarf að rökstyðja og skipa í rétt sam-
hengi, að öðrum kosti eru þær ekki mikils virði. Við þann mikla vanda hef-
ur þekking Davíðs Erlingssonar í miðaldafræðum og mannvísindum verið
mér nærtæk. Mörg álitamál hefur borið á góma í tíðum viðræðum okkar
um Heiðarvígasögu og íslendingasögur yfirleitt og hafa athugasemdir hans
og ábendingar jafnan komið mér að góðum notum. Þar að auki hefur hann
lesið yfir kafla í handriti og bent mér á sitthvað, sem betur mætti fara.
Fleiri góðir menn hafa lagt hönd á plóginn. Ármann Jakobsson, Þórir
Óskarsson og ritstjórinn Sveinn Skorri Höskuldsson lásu verkið í handriti
eða próförk og færðu ýmislegt til betri vegar. Fyrir það færi ég þeim bestu
þakkir. Um þær misfellur í efni og orðum, sem eftir sitja, er auðvitað við
mig einan að sakast.