Studia Islandica - 01.06.1993, Page 267
265
hygli lesandans að ætlun höfundar með verki sínu. Þar er helst
að nefna ummæli Ólafs helga við Barða og brottvísun hans frá
hirðinni; endalyktir Víga-Styrs og Barða; sneypa Þuríðar
Ólafsdóttur; synjun Guðlaugs Snorrasonar, er síðar gekk í
klaustur til að hefna móðurföður síns; dráp Gísla á Gullteig
og að lokum griðamál. Af þessu og fjölmörgu öðru fer vart á
milli mála, að lesanda er ætlað að skilja söguna fyrst og fremst
andlegum skilningi. Höfundur kemur erindi sínu til skila með
endurtekningum, hliðstæðum og andstæðum, en augljósasta
merkjamálið er fólgið í nöfnum helstu söguhetjanna, sem
gegna settu hlutverki sem fulltrúar öndverðra lífsgilda í heimi
sögunnar. Víga-Styrr, Barði og Þuríður ganga þannig erinda
forneskjunnar og þeirrar lífsafstöðu, sem henni fylgja, en
Gestur, Guðlaugur og Eiður eru í fyrirsvari fyrir hinn nýja sið
eða hugmyndir, sem honum eru geðfelldar. Nöfnin mynda
táknrænt hugmyndakerfi.
Höfundur styðst ekki að neinu verulegu marki við gamlar,
innlendar arfsagnir. Jafnvel má ætla, eins og Sigurður Nordal
gat sér til, að margar vísur sögunnar séu eftir höfundinn
sjálfan. Aðalpersónurnar hafa að líkindum verið til og stór-
tíðindi sögunnar hafa átt sér stað, en tilgangur höfundar hefur
ekki verið að finna þeim sannsögulegan griðastað í verki sínu.
Höfundur hefur einkum sótt föng til samtíðar sinnar og bóka,
sem leiddu hann á vit goðsagna, hetjusagna og viðburða úr
sögu ísraelslýðs.
Sagan er þess vegna ekki sannsöguleg frásögn af fornum at-
burðum sögualdar, heldur myndasafn af ódæmum ritunartím-
ans. Sagan er epísk skáldsaga andlegrar merkingar.
Heiðarvígasaga gerist á hvörfum tveggja siða. Höfundur
skynjar ófrið og blóðsúthellingar samtíðar sinnar sem baráttu
tveggja gagnstæðra hugmyndakerfa:
Heiðni — Kristni
Hefnd — Fyrirgefning
Ófriður — Friður
Þótt höfundur nefni guð ekki á nafn í sögu sinni nema í göml-
um griðamálum, þá er guð í textanum. Guð umbunar og