Studia Islandica - 01.06.1993, Page 270
268
ingar guðs. Höfundur sér í hillingum þann heim, þegar mann-
dráp verða af numin og friður ríkir. Sú er hin ósagða en ráðna
framtíðarsýn höfundar. Persónugerving hins óorðna mætti
kalla mann að nafni Vígdvalinn (sem er raunar Kristsheiti í
Sólarljóðum), og væri hann ímyndað andstæðutákn víga-
mannanna Víga-Styrs og Barða.
Heiðarvígasaga fer í flíkur hetjusögunnar og gerir það með
grófgerðum tilburðum til þess að deila á og berjast gegn sið-
fræði hefndarinnar, sem styðst bæði við lög og hefðir samfé-
lagsins. Tilgangurinn er markmið satírunnar, en tökin eru að
miklu leyti aðferð travestíunnar með því að lýsa níðingsverk-
um sem hetjudáðum.
Ritunartími. Heiðarvígasaga hefur, eins og að ofan
greinir, yfirleitt verið talin elst íslendingasagna frá því um
1200, og hafa sterk rök þótt hníga til þess, svo sem fornt
skinnbókarbrot, engar tilvitnanir til annarra rita, fornleg orð
og orðmyndir og loks frásagnarháttur, sem þykir þesslegur,
að sagan sé skrifuð af viðvaningi í árdaga sagnaritunarinnar.
Elsta rithöndin á skinnbókinni Sth. 18,4to, þar sem síðari hluti
Heiðarvígasögu er skráður, hafði verið tímasett um 1250, en
nú þykir einsætt, að höndin sé mun yngri eða frá því um 1300.
Orðfæri og stíll Heiðarvígasögu virðast ekki vera jafntraust
merki um háan aldur sögunnar og fræðimenn hafa jafnan vilj-
að vera láta. Þar kemur hvorttveggja til, að „fornlegar“ orð-
myndir líkar þeim, sem komafyrir í Stokkhólmsbókinni, birt-
ast í handritum, sem eru yngri en frá 1250, og er einkar lær-
dómsríkt að taka aðalhandrit Alexanderssögu til samanburð-
ar (AM 519 A, 4to). Varhugavert er hins vegar að leggja mik-
ið upp úr stíl við tímasetningu, með því að hann er margslung-
ið hugtak og getur verið ýmist persónustíll, tegundarstíll eða
tímastíll. Frásagnarháttur sögunnar er á köflum óheflaður og
„frumstæður", sé miðað við klassískar íslendingasögur. Sum-
ir hnökrar eru sýnilega pennaglöp óvandaðs skrifara, en aðra
má ef til vill fremur rekja til persónubundinnar framsetningar
svo sem klerkastíls í siðbótarsögu en til annmarka, sem stafa
af þroskaleysi sögustílsins, þegar Heiðarvígasaga var í letur
færð. En hversu sem þessu er farið, þá er litlum vafa undir