Andvari - 01.01.1973, Blaðsíða 72
GUNNAR ÁRNASON:
Átrúnaður
Jónasar og Bjarna
Bókmenntafræðingar hafa ritað gagnfróðlegar bækur og ritgerðir unr
ýmsa íslenzka rithöfunda, eldri og yngri, og er slíkt hin þarfasta iðja. Mörg
ágætustu verk þarfnast ósjaldan — einkum er frálíður — meiri og minni
skýringa til að koma lesendunum að fullum notum. Snjallar ritskýringar
verða líka oft kveikjur margvíslegra heilabrota eins og verkin sjálf. Og ósjald-
an auka þær mönnum skilning á því, hvað mikilhæf skáld eru oft í senn
rödd þjóðarinnar á ýmsum sviðum, en jafnframt framsýnir leiðtogar hennar
bæði í veraldlegum og andlegum efnum.
Hér er ekki unr slíka ritskýringu að ræða. En snemma lék mér að
vonum hugur á að kynna mér afstöðu íslenzkra skálda til trúarbragðanna
og hverjar trúarhugmyndir þau hefðu einkum ofið inn í meðvitund almenn-
ings. Sá þáttur er, eins og nærri má geta, ákaflega misgildur. Hjá sumum,
sem mest fást við sálmaskáldskap, er næstum eingöngu úr honum ofið. Hjá
ýmsum öðrum fer allmikið fyrir honum, ef að er gætt. Stundum er hann að-
eins bláþráður. Og svo eru þess ófá dæmi, einkum í seinni tíð, að skáld lýsa
sig andsnúin öllum trúarbrögðum. Þar með er ekki sagt, ef grandgæfilega
er rakið, að áhrifa þeirra gæti ekkert í ritum þessara höfunda.
Það liggur í hlutarins eðli, að könnun á sálmaskáldskap almennt talað
er áhugaverðari trúfræðingum en öllum almenningi. Hitt má telja líklegt, að
marga, lærða og leika, fýsi að vita nokkur skil á aðallífsviðhorfum verald-
legra höfuðskálda. Gert er, að órannsökuðu máli, ráð fyrir, að þau muni vera
frumlegri og sjálfstæðari í trúarlegum efnum en v'ígðh' menn. Þess vegna
freistaði ég þess snemma á prestskaparárum mínum, þegar mér gáfust allmiklar
tómstundir, að gera mér eftir föngum grein fyrir átrúnaði nokkurra íslenzkra
höfuðskálda, þ. á m. Jónasar Hallgrímssonar og Bjarna Thorarensens, eins og
hann birtist í Ijóðum þeirra. Þessa varmgla verður vel að gæta. I máli þessu
verða ekki færðar órækar sannanir fyrir raunverulegri trú þeirra skálda, er
hér koma við sögu. Það væri aðeins unnt, ef beinar trúarjátningar væru fyrir