Andvari - 01.01.1973, Blaðsíða 122
120
ÞORSTEINN SÆMUNDSSON
ANDVARI
hefði nokkru sinni komið ritverki sínu í prentun, ef hann hefði ekki fengið
óvænta aðstoð og uppörvun.
Vorið 1539 kom í heimsókn til hans ungur fræðimaður mótmælenda-
trúar, Georg Joachim, öðru nafni Rheticus, prófessor við háskólann í Witten-
berg. Kóperníkus sýndi honum verk sitt, og Rheticus fékk svo rnikinn áhuga
á því, að hann sökkti sér niður í lestur þess í þrjá mánuði samfleytt. Að lestr-
inum loknum hvatti hann Kóperníkus eindregið til að láta prenta ritið og
bað jafnframt um heimild hans til að gefa út lýsingu á verkinu, eins konar
undanfara að heildarútgáfu verksins. Bók Rheticusar, Narratio prima de libris
revolutionum, kom út þegar næsta ár, 1540, og ber það gleggstan vott um
dugnað Rheticusar. Narratio prima var fyrst prentuð í Gdansk, en mjög
skömmu síðar endurprentuð í Basel. Bókin fór víða og vakti forvitni margra
fræðimanna, sem biðu þess nú með nokkurri eftirvæntingu að sjá ritverk
Kóperníkusar, sem Rheticus hafði lýst af svo mikilli hrifningu.
Rheticus sneri aftur til Frombork eftir stutta fjarveru og lagði sig nú
allan fram við að fá samþykki Kóperníkusar til að gefa út hina stóru bók
himinsnúninganna. Með aðstoð annarra vina Kóperníkusar tókst Rheticusi
loks eftir langa mæðu að yfirvinna efasemdir hins mikla stjörnumeistara. Það
sem eftir var árs 1540 og árið 1541 vann Rheticus síðan baki brotnu að því að
búa verkið til prentunar. Þess má geta, að hann fékk heimild Kóperníkusar til
að gefa út sem sérprentun þann lduta verksins, sem fjallaði um þríhyrninga-
fræði, og sendi þá sérprentun m. a. til nokkurra leiðtoga mótmælenda. Virð-
ist Rheticus hafa gert þetta til að sýna fram á hið almenna gildi þess verks,
sem Kóperníkus hefði unnið.
Kóperníkus gerði enn nokkrar breytingar á ritinu, lagfærði og jók við
útskýringum. Ýmislegt bendir til, að hann hafi ætlað að slá botninn í verkið
með lokakafla, þar sem fjallað væri um heildarniðurstöður, en sá kafli var
aldrei skrifaður, sennilega vegna þess, að heilsu meistarans var nú tekið
að hraka. Undirbúningurinn að prentun verksins lenti því æ meir á Rheticusi.
Bókina átti að prenta í Núrnberg í Þýzkalandi, og setning hennar hófst í maí
1542. Rheticus hafði fengið leyfi frá störfum við háskólann í Wittenberg til
að vinna að verkinu, og hann las í fyrstu prófarkir. Síðar þurfti þó Rheticus
að fara til Leipzig og skildi þá útgáfuna eftir í höndum eins af þekktustu guð-
fræðingum mótmælenda, Andreasar Osianders.
Osiander hafði áður skrifazt á við Kóperníkus og ráðlagt honum að færa
kenningar sínar í annan búning til að forðast andstöðu kirkjunnar. Mælti
Osiander með því, að Kóperníkus skrifaði formála, þar sem hann legði áherzlu
á, að stjörnufræðilegar kenningar væru ekki trúaratriði, heldur eingöngu