Andvari - 01.01.1973, Blaðsíða 160
158
1>ÓRÐUR JÓNSSON
ANDVAM
„En hvað er það þá, sem fer inn í skáldið og verður þar vísir nýrrar
persónu? Allt hendir til, að það sé eins konar „háttur", eins lionar form,
sem felst í orðum manna og athöfnum" (341. hls.).
I lok kaflans er vikið að hlutverki skáldskaparins. Þar segir:
„Skáldskapurinn miðar að því að fullnægja einni dýpstu þörf
mannssálarinnar, þeirri að lifa svo ríku lífi sem unnt er. „Meira líf' er
það, sem hver sál þráir, Ijóst eða leynt. Með því að verða hluttakandi í
lífi annarra, verða eins konar hljóðfæri, sem endurómar raddir lífsins, á
þann hátt, er ég hefi reynt að skýra, verður líf manns ótal sinnum rikara
en áður“ (350.—351. hls.).
Þetta er hárrétt, svo langt sem það nær. Allir vita, hvílík ógrynni af reyf-
urum og alls kyns æsibókmenntum eru framleidd í heiminum. Það er til að
fullnægja hinni frumstæðu lífshvöt, er Guðmundur lýsti hér að ofan. „Hinn
sanni maður vill tvennt: hættu og leik,“ — sagði Nietzsche. Mér virðist önnur
hvöt, sköpunarþörfin, vera aðalundirrót bókmennta sem og annarra lista og
vísinda. Ef skáldin hefðu einungis þörf fyrir æsilegra og tilbreytingarríkara líf,
þá myndu dagdraumar og bóklestur nægja. Aftur á móti er sköpunarþráin þess
valdandi, að andi skáldanna íklæðist orðum. Sköpunarþráin hefur fylgt hinurn
skyni borna rnanni frá fyrstu tíð. Vér sjáum merki hennar í hellamyndum og
steinaristum fornaldarmanna. Mátturinn og hvötin til að skapa nýja hluti og
hugsa frumlega er einn veigamesti munurinn á manni og dýri.
Hinzti kafli bókarinnar ber nafnið Listirnar og lífið. Þar kemur fram líkt
sjónarmið og hér að ofan: „. . . . í listum manna ræður breyting, þróun, frum-
sköpun. Listin er sífelld nýsköpun ....“ (353. bls.). Meginhluti kaflans er
helgaður lýsingu á eðli listanna og tilkomu þeirra í upphafi. Hyggur Guðmundur,
„að í leiknum og leikgleðinni sé fyrsti vísir listanna", og virðist hann því sama
sinnis og Nietzsche. Á 357. bls. skilgreinir hann list:
„Listaverk er einkennileg sköpun, sem réttlætir sig sjálf, vekur unað
eða aðdáun vegna þess, hvernig hún er, án tillits til allr.i annarra af-
leiðinga, sem hún kynni að hafa, án tillits til alls annars gagns, sem hún
gerir eða gæti gert."
Sömu hugsun orðar Oscar Wilde ógleymanlega í formála að sögu sinni
um myndina af Dorian Gray: „Listamaður er skapari fagurra hluta.“ Þessi
stutta setning segir í rauninni allt, sem segja þarf um listina. Lleiri orð eru
mælgi.