Andvari - 01.01.1973, Blaðsíða 126
124
ÞORSTEINN SÆMUNDSSON
ANDVARI
sannleikanum um brautir biminhnattanna: brautirnar voru ekki hringir, held-
ur sporbaugar. Sigribrósandi svipti Kepler burt iillum annmörkunum á sól-
kerlismynd Kóperníkusar, öllum aukahringunum og hjámiðjunum, sem Kóp-
erníkus sjálfur hafði verið svo óánægður með. Eftir stóð þessi einfalda mynd:
Allar reikistjörnurnar, að jörðinni meðtalinni, ganga um sólina eftir sporbaug-
um, þar sem sólin situr í öðrum brennidepli. Kepler gat ennfremur sýnt fram
á, að hreyfing hverrar reikistjörnu eftir braut sinni lyti einföldum lögmálum
cg færi eftir fjarlægð reikistjörnunnar frá sólu.
Þetta sama ár, 1609, fékk annar stuðningsmaður Kóperníkusar, Italinn
Galíleó Galílei, fregnir af nýju áhaldi, sem fundið hafði verið upp í Hollandi.
Þetta var sjónaukinn, og Galíleó varð fyrstur manna til að beina honum að
stjörnuhimninum. Það sem hann sá, staðfesti kenningar Kóperníkusar í einu
og öllu. Máninn var greinilegur hnöttur, með fjöllum og sléttum eins og jörðin.
I kringum reikistjörnuna Júpíter gengu fjögur tungl, sem mynduðu eins konar
smækkaða líkingu af sólkerfinu, eins og Kóperníkus hafði lýst því. Þarna voru
með sanni fundin himintungl, sem gengu í kringum annan linött en jörðina.
Reikistjarnan Venus sýndi kvartilaskipti eins og máninn, — sönnun þess, að
kerfi Ptólemæusar gat með engu móti verið rétt hvað göngu Vcnusar snerti.
Loks uppgötvaði Galíleó dökka bletti á yfirborði sólarinnar, og með því að
fylgjast með þessum blettum komst Galíleó að raun um, að sólin liafði möndul-
snúning hliðstæðan snúningi jarðarinnar sjálfrar í kenningu Kóperníkusar.
Viðbrögð kaþólsku kirkjunnar létu ekki á sér standa. Hér verður ekki rakið,
hvílíkar ofsóknir Galíleó varð að þola, því að sú saga mun flestum kunn.
Árið 1616 setti kaþólska kirkjan rit Kóperníkusar, De revolutionibus, á bann-
lista, að vísu með þeim fyrirvara, að bókina mætti leyfa aftur, ef nauðsyn-
legar breytingar yrðu á benni gerðar. Þeim breytingum var nánar lýst í úr-
skurði 1620: í bókinni skyldi tekið fram, að jörðin væri ekki reikistjarna, að
hún hreyfðist ekki, o. s. frv. Þessi úrskurður jafngilti að sjálfsögðu algjöru
banni. Sömuleiðis voru bannlýst ritverk Keplers, Epitome Astronomiæ Coperni-
canæ, og bók Galíleós, Dialogo dei due massimi sistemi del mondo. Þessi þrjú
ritverk hurfu ekki aftur af bannlistanum fyrr en á 19. öld.
Bann kirkjunnar gat þó með engu móti stöðvað þá byltingu, sem þarna
var hafin. Bækurnar voru lesnar eftir sem áður, og Galíleó var ekki einn um
sjónaukann. Og síðar á 17. öldinni rak Newton smiðshöggið á verkið með
uppgötvun hreyfingarlögmálanna og þyngdarlögmálsins. Lögmál Newtons
staðfestu ekki aðeins, hvernig himinhnettirnir lireyfast, heldur skýrðu þau,
hvers vegna þeir hreyfast á þennan tiltekna hátt. Því má segja, að Newton
hafi lokið því verki, sem Kóperníkus hóf.