Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.12.1967, Blaðsíða 115
TlMARIT VFl 1967
113
Söltun
Áður fyrr var eingöngu um eina aðferð að
ræða við fiskvinnslu um borð, og var hún fólgin
í því að geyma fiskinn í salti. Söltun hefur verið
framkvæmd í miklum mæli í langan tíma og er
hún enn mikið notuð. T. d. má nefna að Portú-
galar, Spánverjar og Frakkar salta mikið magn
af fiski á Nýfundnalandsmiðum. Islendingar
fóru að salta fisk um borð strax og þeir fóru
að stunda veiðar á þilskipum. Á togurunum var
oft mikið saltað af fiski fram að síðasta stríði
og aftur í nokkur ár eftir 1950. Söltun á síld um
borð er mikið stunduð hjá nokkrum þjóðum,
svo sem Hollendingum, Norðmönnum og Svíum.
Hjá þessum þjóðum fer söltunin aðallega fram
um borð í fiskiskipunum sjálfum, og Sovétríkin
eiga nokkur stór móðurskip, sem taka á móti
síldinni ferskri af fiskiskipunum og salta hana.
Niðursuða
Japan, Sovétríkin og Bandaríkin gera út
nokkur móðurskip, sem sjóða niður fisk. Þau
stunda veiðar á Norður-Kyrrahafi og sjóða aðal-
lega niður lax og rækju. Ýmsir erfiðleikar eru
í sambandi við rekstur slíkra skipa. Þau þurfa
að hafa mannmarga áhöfn, en sérstaklega getur
verið erfitt að leysa þann vanda að hafa nóg af
hreinu vatni til niðursuðunnar.
Frysting
Sú aðferð, sem ætlunin er að gera fyllst skil í
þessu erindi, er frysting um borð. Þessi vinnslu-
aðferð er tiltölulega ný, en eins og gert verður
grein fyrir í næsta kafla, sést, að hún hefur
aukizt mjög ört síðustu árin, og horfur eru á,
að hún verði sívaxandi þáttur í vinnslu sjávar-
afla. Samkvæmt skýrslum FAO 1964 voru 17,8
milljón tonn af fiski uninn á einhvern hátt til
manneldis árið 1964, þar af 5 milljón tonn fryst.
Tíu árum áður voru 11,2 milljón tonn unnin, þar
af 1,7 milljón tonn fryst. Frystingin hefur því
aukist nær því þrefalt á tímabilinu, en aðrar
vinnslugreinar aðeins um 35%. Margt bendir til,
að frysting á fiski eigi enn eftir að aukast hröð-
um skrefum. Samkvæmt því, sem bent hefur
verið á hér að framan, að sívaxandi erfiðleikar
eru á að koma fiskinum ferskum til hafnar, má
því ætla, að mikill hluti aukningarinnar verði í
sambandi við aukna útgerð á fiskiskipum eða
móðurskipum, sem frysta fiskinn á fiskimiðun-
um.
Frysting um borð
Frystitogarar
Flestar þjóðir, sem stunda úthafsfiskveiðar,
eiga nú orðið skip, þar sem hægt er að frysta
fisk um borð. Stærð og búnaður skipa þessa er
með ýmsu móti, eftir því hvaða veiðar eru stund-
aðar, svo og hvaða kröfur eru gerðar til íbúða
áhafna o. fl.
Flokka má frystiskipin á eftirfarandi hátt:
Móðurskip, þar sem tekið er á móti fiski, sem
önnur skip afla á ákveðnu veiðisvæði í nánd við
móðurskipið. Aflinn er síðan flakaður um borð
og frystur.
Verksmiðjutogarar, þar sem unninn er eigin
afli. Fiskurinn er flakaður um borð og flökin
pökkuð og fryst.
Frystitogarar, þar sem eigin afli er aðeins
frystur, án þess að flaka fiskinn. Fiskurinn er
frystur slægður og annað hvort með eða án
hauss.
Hér verður aðallega rætt um síðast nefnda
flokkinn, frystitogarana, og verður einkum sagt
frá þróun frystingar um borð í togurum eins og
hún hefur átt sér stað í Bretlandi. Frysting á
fiski um borð í skipum hófst í verksmiðjutog-
urunum eða nánar tiltekið hinum þekktu Fairtry
togurum. Sá fyrsti þeirra hóf veiðar árið 1953.
Síðan komu tveir aðrir Fairtry togarar, en marg-
ir sams konar togarar hafa síðan verið smíðaðir
fyrir Rússa og Pólverja. Austur-Evrópu þjóð-
irnar, Japanir og fleiri þjóðir virðast hafa haft
meiri áhuga á stóru verksmiðjutogurunum en
Bretar og V-Þjóðverjar. Þjóðir þessar gera nú
út mikinn flota af togurum þessum, sem eru frá
2— 4000 brúttólestir að stærð. Þessir togarar
hafa um eða yfir 100 manna áhöfn og geta liðið
3— 4 mánuðir milli landanna, eða ennþá lengri
tími. Svo langt úthald getur valdið erfiðleikum
við að manna skipin, og er það eflaust ein ástæð-
an fyrir því, að Bretar virðast ekki lengur hafa
áhuga að gera út fleiri verksmiðjutogara. Aftur
á móti snerist athygli þeirra að því að reyna
nýjan möguleika, sem fólginn er í, að eldri gerð
togara var breytt þannig, að unnt yrði að
frysta hluta af aflanum um borð. Nothern Wave,
gufuknúnum togara frá Hull, var breytt þannig
í tilraunaskyni, að hann gæti fryst hluta af afl-
anum í sérstökum plötufrystitækjum, sem smíð-
uð höfðu verið og reynd í samráði við Torry-
rannsóknastofnunina í Aberdeen. Tæki þessi
voru frábrugðin öðrum plötutækjum að því leyti,
að plöturnar voru lóðréttar. 1 hverju bili milli