Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.12.1967, Blaðsíða 316
314
TlMARIT VFl 1967
mér hreint ekki svo afleitt, og ef um aukningu
er að ræða, sem ég hef ekki hugmynd um hvort
er möguleg eða ekki, þá tel ég að þarna sé a.m.k.
komin talsverð byrjun. Það er oft erfitt, þegar
talað er um markaðsmál að sanna, hvað hægt
er að gera. Oft er eina sönnunin sú að fram-
kvæma verkið. Til þess þarf að jafnaði ærið fé,
og þess vegna má deila endalaust. Einn segir:
Þetta er ekki hægt. Annar segir: Það er hægt.
En áheyrandinn, sem ekki þekkir inn á málið,
hefir raunverulega enga möguleika til þess að
gera upp við sig, hvor hefur með rétt mál að
fara. Því segi ég þetta, að ég er sannfærður um
það sjálfur, að það er hægt að selja þessa vöru
í Bandaríkjunum, en ég hef ekki aðstöðu til þess
að gera það, og þess vegna er erfitt að sanna
það.
Að því er snertir tilraunir til niðursuðu á síld
á vegum Síldarverksmiðja ríkisins fyrir tuttugu
og eitthvað árum, þá er það aðallega eitt, sem
ég vil alveg eindregið leiðrétta. Sveinn Bene-
diktsson tók það fram, að þetta hefði verið
bragðgóð vara og þótt heldur útgengileg til að
byrja með, en svo hafði hún skemmzt. Þetta er
ekki rétt. Ég geymdi sumt af þessu í mjög lang-
an tíma, og það var ekki um skemmd að ræða,
enda er það viðurkennt hjá flestöllum, sem eru
vanir að vinna með niðursoðna síld, að hún
skemmist ekki að bragði, ef hún hefur verið
rétt soðin, sem hún var örugglega í þessu tilfelli.
Hún skemmdist ekki að bragði, hún frekar mild-
ast um a.m.k. allmargra mánaða skeið og fer
því frekar fram. Eftir mjög langan tíma má svo
fara, jafnvel þó að vel hafi verið frá henni gengið,
að hún taki upp blikkbragð, en það gerist eftir
mjög langan tíma, og það var ekki tilfellið þarna.
Hitt var svo annað mál, að þessar tilraunir voru
gerðar árið 1945 og að einhverju leyti 1946. Þær
voru undirbúnar á hinum miklu síldveiðiárum
þarna á undan og árið 1944, sem mun hafa verið
seinasta mikla síldveiðiárið. Þá var reiknað með
mikilli veiði áfram og frekari vinnslu. Svo nátt-
úrlega dró það kjark úr mönnum að halda
áfram framkvæmdum í niðursuðu, þegar það lá
ekki fyrir, að nýtt hráefni væri fyrir hendi eins
mikið og ráð hafði verið fyrir gert. Hitt er svo
annað mál, að ég er alls ekki sannfærður um, að
það hafi verið rétt að hætta við það, því að
alltaf barst þó eitthvað að, og ég get trúað, að
þarna hefði verið hægt að leggja grundvöll að
verulegri vinnslu. Að því er snertir annað, sem
þessi sama verksmiðja átti að gera, þ.e.a.s. að
leggja niður síld, þá hefur náttúrlega sá grund-
völlur haldizt alveg óbreyttur, og það er eins og
með hitt, að það má lengi segja: Þú hefur á
röngu að standa og ég á réttu. En ég hef þá
trú, að hefði ég byrjað þá, þá hefði verið jafn-
vel að sumu leyti betri aðstaða til þess að byggja
upp markað í Evrópu og víðar, og þá var ekki
eins mikil samkeppni eins og nú. Ég er þess
vegna sannfærður um, að hefði verið haldið
áfram með þá verksmiðju, þá hefði tekizt að
vinna markaði fyrir niðursoðna síld, og vafa-
laust hefði tekizt að vinna markaði fyrir niður-
lagða síld. Sveinn Benediktsson minntist líka á
það, að ekki hefði verið til mikils unnið við til-
raunir mínar í Fiskiðjuveri ríkisins. Ég ætlaði
ekki að fara að rekja þessa gömlu sögu lengur,
en fyrst það er komið á dagskrá, þá get ég
ekki komizt hjá því að segja um það aðeins nokk-
ur orð. Fiskiðjuver ríkisins var eitt af þessum
furðulegu fyrirtækjum. Ríkisstjórnin ákvað að
byggja það á tilteknum tíma, næsta ríkisstjórn
ákvað að reyna að selja það og tók fyrir fjár-
veitingar til þess að langmestu leyti. Ég var
kannski ekki hygginn að segja þá ekki af mér
og hætta, en ég reyndi við þetta áfram alger-
lega félaus og með mjög litla möguleika til að
afla hráefnis eða til að fullgera það vélakerfi,
sem þarna var. Það kann að vera, að það hafi
verið óhyggilegt. Þó var svo komið eftir um 10
ára starf, að fyrirtækið var farið að græða svo
mikið, að það gat farið að taka síldarniðursuðu-
málin nokkrum tökum. Árið 1958 vorum við
komnir með allverulega markaðsmöguleika á
niðursoðnum síldarflökum, aðallega eftir dæmi
Þjóðverja, sem eru meistarar í því að búa til
alls konar sósur á síld. Ég held að ég hafi minnzt
á það í gær eða í fyrradag, að árið 1958 varð
nokkuð úr útflutningi. Þá loksins hafði fyrirtæk-
inu vaxið þannig fiskur um hrygg, að það gat
bætt við sig meiri vélum, og ég hafði lagt til að
það yrði gert, og það var hægt, án þess að fá
til þess utanaðkomandi fé. En áður en til þess
kæmi, að sú starfsemi kæmist áfram næsta
haust eða árið 1959, þá var búið að selja fyrir-
tækið, án þess að ég væri að nokkru hafður
með í ráðum. Það voru algerlega virtir að vett-
ugi þeir möguleikar, sem þar lágu þá fyrir um
að framleiða og selja niðursoðna síld. Mér hefur
stundum verið álasað fyrir það, að þar hafi ég
verið að fara með opinbert fé og þess vegna
hafi ég getað talað digurbarkalega um það, að
þetta eða hitt hafi verið hægt. En ég skal taka
það fram, að þegar þetta fyrirtæki var selt, þá
taldi ég persónulega vera svo öruggan grund-
völl kominn einmitt undir þessa starfsemi, að ég
gerði allt sem ég gat, til þess að fá sjálfur að