Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.12.1967, Qupperneq 138
136
TlMARIT VFl 1967
litsgóða greinargerð um niðursuðu og stöðu ís-
lenzka niðursuðuiðnaðarins í dag. Ég vil um leið
nota tækifærið og gera nokkrar fyrirspurnir og
athugasemdir um atriði, er varða niðursuðu-
iðnað okkar Islendinga almennt. Hefur farið
fram nokkur markaðsleit á vegum hins opinbera?
Er ekki kominn tími til að sameinast um fá
vörumerki, sem framleiðendur vinna upp í sam-
vinnu og með hjálp hins opinbera? Hægt er að
gera mun hagkvæmari kaup á hráefnum til nið-
ursuðuiðnaðarins en nú er með sameiginlegum
innkaupum. Skapa verður álit á íslenzkum nið-
ursuðuvörum erlendis. Sérstaklega verður að
benda á í því sambandi mjög strangt eftirlit
með framleiðslu til útflutnings. Einnig verðum
við að sameinast um að skapa íslenzkan vöru-
gæðastaðal. Hver er stefna hins opinbera um
þessi mál? Á íslenzkur niðursuðuiðnaður að vera
áfram afskiptur í sambandi við fjárframlög til
hagræðingar í verksmiðjum sínum til bættrar
samkeppnisaðstöðu ?
Jónas H. Haralz:
Þessar umræður hafa nú beinzt svo mikið að
þeim málum, sem ég var að ræða hér í morgun,
að mig langar til að gera þeim dálítil skil á nýj-
an leik. Ég held það komi nokkuð skýrt fram
í erindi mínu, hver séu þau meginsjónarmið, sem
ég hefi á þessum málum, og að hvaða leyti þau
séu frábrugðin þeim sjónarmiðum, sem þeir dr.
Sigurður Pétursson og dr. Jakob Sigurðsson
leggja mesta áherzlu á. Mig langar þó aðeins
til þess að reyna í stuttu máli að draga fram
höfuðatriðin. Þeir dr. Sigurður og dr. Jakob
spyrja þessarar spurningar: „Hvernig stendur
á því, að íslenzkur niðursuðuiðnaður hefur ekki
þróazt á sama hátt eins og t.d. frystiiðnaður?"
Eina svarið, sem þeir gefa við þessari spurningu,
er í rauninni það, að við höfum ekki sinnt þeim
tækifærum, sem þessi iðnaður veitir, við höfum
misst af strætisvagninum, við höfum byrjað of
seint, eða, eins og dr. Jakob sagði áðan, við
höfum ekki tekið ákvörðun um að hrinda þessu
í framkvæmd. Ég held, að málið sé ekki svona
einfalt. Ég held það sé ekki neinum slóðaskap,
hvorki opinberra aðila né atvinnurekenda, að
kenna, hversu lítið niðursuðuiðnaður hefur þró-
azt hér á landi. Ef tækifærin hefðu verið sam-
bærileg við það, sem þau hafa verið í öðrum
greinum, þá hefðu atvinnurekendur verið reiðu-
búnir að leggja sig meira fram en þeir hafa
gert og það opinbera einnig. Við eigum hér við
miklu meira grundvallaratriði að etja, sem sé
það, að skilyrði fyrir niðursuðu- og niðurlagn-
ingariðnaði á íslandi eru ekki nærri því eins
hagstæð eins og fyrir þær iðngreinar, sem við
höfum stundað. Þá eru kostirnir við að fullvinna
það hráefni, sem um er að ræða, hér á landi
samanborið við að vinna það í markaðslöndun-
um mjög litlir, ef þeir eru þá nokkrir. Við þetta
bætist svo, að við höfum mjög lengi rekið og
rekum enn almenna stefnu í efnahagsmálum,
sem má segja að komi hart niður á þessum iðn-
aði og geri honum ekki jafn hátt undir höfði
og ýmsum öðrum greinum. Það er þetta síð-
astnefnda, sem þeir dr. Jakob og dr. Sigurður
geta með réttu kvartað yfir fyrir hönd þessa
iðnaðar. Ég mundi að vísu ekki taka landbúnað-
inn til samanburðar, eins og dr. Sigurður gerði,
en við getum tekið tollverndaðan iðnað til sam-
anburðar, og sjáum þá, að öðruvísi hefur verið
að honum búið en niðursuðuiðnaðinum. Því má
að sjálfsögðu halda fram með miklum rétti, að
ekki eigi að búa ver að niðursuðuiðnaði, öðrum
hugsanlegum útflutningsiðnaði og ótollvernduð-
um iðnaði fyrir innlendan markað heldur en
gert hefur verið varðandi annan iðnað.
Dr. Jakob Sigurðsson rakti nokkuð sambæri-
leg skilyrði til framleiðslu á niðurlagðri vöru
hér og erlendis, en mér fannst hann ekki gera
því máli nægilega fullkomin skil. Hér erum við
að fást við atriði, sem falla undir staðsetningar-
fræðina, fræðigreinina um það, hvar sé heppi-
legast að staðsetja iðnrekstur. Flutningskostn-
aðurinn, sem skiptir máli í þessu sambandi, er
auðvitað flutningskostnaður á hráefninu eða
hálfunninni vöru annars vegar, og flutnings-
kostnaður á fullunninni vöru hins vegar. Höfum
við þar nokkra yfirburði? Er ódýrara að flytja
síld í dósum út til Svíþjóðar heldur en á tunn-
um? Að minnsta kosti ekki, ef við fyrst þurfum
að flytja dósirnar inn, e.t.v. í heilu lagi. Er ódýr-
ara að flytja fiskrétti í kössum út til Bandaríkj-
anna heldur en að flytja fiskinn frosinn í blokk-
um? Ég býst við, að það sé þvert á móti, ég
tala nú ekki um, þegar við tökum það með í
reikninginn, að um það bil einn fjórði af þunga
fiskrétta er brauðmylsna, sem við mundum
verða að flytja inn og síðan aftur út. Þar að
auki koma mörg önnur atriði til greina, sem
erfiðara er að henda reiður á, en sem skipta
miklu máli og yfirleitt eru þess eðlis, að því
er allar almennar neyzluvörur snertir, að stað-
setning á markaðssvæðinu sjálfu hefur yfirburði
yfir staðsetningu á hráefnissvæðinu. Það er auð-
veldara að stunda hvers konar sölustarfsemi,
ef staðsetning er á markaðssvæðinu, birgðahald-
ið getur verið minna, auðveldara er að laga