Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.12.1967, Qupperneq 119
TlMARIT VFÍ 1967
117
hillur. þar sem köldu lofti er blásið yfir. Norð-
menn hafa útbúið nokkur fiskiskip með tækj-
um, sem flytja fisk í bökkum niður í efsta hluta
frystilestarinnar, en þar eru blásarar, sem blása
köldu lofti lestarinnar yfir bakkana, og er fisk-
urinn frystur í þeim á þann hátt. Tæki til blást-
ursfrystingar eru oftast rúmfrek, og einnig eyða
þau meiri orku en aðrar tegundir frystitækja,
og eru þetta sennilega ástæðurnar fyrir því, að
aðferð þessi hefur almennt ekki verið tekin upp
um borð í frystitogurum Vestur-Evrópuþjóða.
Plötufrysting.
Frysting milli kældra málmplatna er algeng-
asta aðferðin við hraðfrystingu á matvælum.
Venjulegast eru plöturnar hafðar láréttar, og
það, sem frysta á, er sett í bakka og þeir síðan
lagðir milli platnanna. Plötunum, sem geta verið
allt að 20 að tölu, eru síðan þrýst saman með
vökvaútbúnaði, þannig að góð snerting fáist við
bakkana og innhald þeirra. Plötufrystitæki með
láréttum plötum eru nokkuð algeng um borð í
fiskiskipum, sem frysta flök. T. d. voru þannig
tæki sett um borð í brezku Fairtry-togarana, og
mörg slík tæki eru um borð í þýzkum verk-
smiðjutogurum. Aftur á móti þykja þau óhentug
til að frysta fisk í heilu lagi. Þau krefjast einn-
ig töluverðs gólfflatar, þar sem rúm þarf að
vera fyrir hendi til að setja inn og taka út pönn-
ur og til að opna tækin. Erfitt getur einnig ver-
ið að koma bökkunum fyrir í tækjunum eða taka
þá út, ef sjógangur er, og hafa því ýmsir fram-
leiðendur slíkra tækja reynt að gera þau sjálf-
virk, þannig að hentugt yrði að nota þau um
borð í skipi.
Sem fyrr segir hafa Bretar valið plötufrysti-
tæki með lóðréttum plötum fyrir frystitogara
sína. Einnig hafa nokkrar aðrar þjóðir útbúið
frystitogara með slíkum tækjum.
Ástæðan fyrir því, að plötufrystitæki með lóð-
réttum plötum voru byggð til notkunar um borð,
var sú, að álitið var, að mikill vinnusparnaður
og hagræði væri falið í því að geta fryst slægð-
an fisk í tækjum, þannig að ekki þyrfti annað
en að leggja fiskinn niður í bilin á milli platn-
anna. Enga bakka þyrfti þá að nota, en fiskur-
inn kæmist í góða snertingu við frystiplöturnar
vegna þrýstings af eigin þyngd. Fyrsta tækið af
slíkri gerð var byggt hjá Torry-rannsóknastofn-
uninni í Aberdeen í Skotlandi. Síðan voru tæki
byggð í samráði við stofnunina hjá fyrirtæki í
Englandi og sett um borð í togarann Northern
Wave, eins og áður var greint frá. Síðan hafa
margar endurbætur verið gerðar á tækjum þess-
um, en að minnsta kosti 3 brezk fyrirtæki hafa
hafið framleiðslu á þeim.
Athuganir leiddu í ljós, að ef bilið milli platn-
anna væri haft um 10 sm, gætu tækin fryst all-
an þorsk, nema þann allra stærsta. Algengast er
því að hafa bilið á milli platnanna 10 sm, og er
hægt að koma 35—55 kg af fiski á milli þeirra.
Frystingin tekur um 3—4 klst, og frjósa þá
fiskarnir saman í blokkir, sem venjulegast eru
hafðar 50 sm breiðar og 90—105 sm langar. Al-
gengast er, að hvert tæki hafi 12 bil, þannig að
hægt er að koma fyrir í tækinu um 600 kg af
fiski í einu. Afköst hvers tækis er þá um 3%
tonn/24 klst. Tækin eru ávallt hlaðin að ofan,
en eftir frystingu er blokkunum náð úr þeim á
mismunandi hátt, eftir því hvað hentugast þyk-
ir. T. d. er um borð í togaranum Narfa vökvaút-
búnaður, sem flytur blokkirnar eftir frystingu
beint niður í frystilestina, sem er undir tækjun-
um. Hægt er einig að fá tæki, þar sem blokkirn-
ar eru teknar út úr hliðunum. Mismunandi hátt-
ur er einnig hafður á um affrystingu eða hvort
plötunum er þrýst saman eða ekki fyrir fryst-
ingu. 1 togaranum Junella eru tæki, sem ekki
þarf að affrysta áður en blokkirnar eru teknar
úr þeim. Plöturnar eru húðaðar með sérstöku
efni, sem auðveldar losun með þrýstingi frá
annarri hlið. Algengast er þó að dæla heitum
kælimiðli gegnum plöturnar, skömmu áður en
blokkirnar eru teknar úr tækjunum, en með þessu
móti er losun gerð auðveld. Þar að auki vinnst
annað mikilvægt atriði, því hægt er að koma
meiru af fiski í tækin, ef plöturnar eru volgar,
þegar þau eru hlaðin. Ástæðan fyrir því er sú,
að þá er hægt að þrýsta fiskinum þéttar saman.
Einnig tekur skemmri tíma að frysta fiskinn
eins og niðurstöður Torry-rannsóknastofnunar-
innar í Aberdeen sýna í töflu 1 hér á eftir.
Taflan sýnir, að jafnstór blokk vegur um
16,5% minna, ef fiskurinn er settur í frystitæk-
in með köldum plötum (óaffrystar), en ef plöt-
urnar eru volgar.
Frystilest fiskiskips tekur því samsvarandi
minna magn af frystum blokkum. Frystitíminn
er einnig 33% lengri, þannig að afköst hvers
tækis eru um 40% minni að magni til. Augljóst
er því, að hagkvæmara er að affrysta plöturnar
fyrir losun. Niðurstöður sem þessar sýna, að
framleiðendur frystitækjanna hljóta enn að vera
að þreifa fyrir sér, hvernig hentugast sé að
smíða og nota þessi tæki. Má því búast við, að
töluverðar breytingar muni eiga sér stað á tækj-
unum í náinni framtíð.