Rökkur - 01.06.1952, Side 69
RÖKKUR
117
„Hvern þremilinn áttu við?“
„Eg vil ekki, að þú stígir fæti þínum inn fyrir húsdyr á
Wrybourne Feveril, því að mér eru, sannast að segja, samvistir
við þig lítt að skapi.“
„Og eg vil ekkert hafa saman við þig að sælda. Hvers vegna
ertu þá hingað kominn?“
„Til þess að gera þér tilboð.“
„Ef þú hyggst kaupa Wrexford-mylluna kemurðu of seint,
því að eg er búinn að selja hana — og það gleður mig að geta
tilkynnt þér það.“
„Eg hafði frétt um söluna.“
„Já,, vitanlega, Cecily hefir hlaupið til þín með fréttirnar.“
„Hún sagði mér frá því.“
„Og vitanlega sagt þér alla raunasöguna — frá misklíð
okkar —
„Nei, hún minntist ekki einu orði á neina misklíð, hún er
stórlyndari en svo, að hún gerði slíkt.“
„Veit eg það, þrællinn þinn —“
„En —,“ sagði Sam, án þess að láta sér bregða, — „þótt hún
se göfugri en svo, að minnast á þetta einu orði og reyndi af
fremsta megni að láta það líta svo út sem hún væri hamingju-
söm, ung eiginkona, þá mistókst henni það, sem vonlegt var,
því að hún- gat ekki leynt bólgnum úlnliðum og marblettum á
þeim. Hver skyldi hafa verið þar að verki? Vei þeim, sem
þannig smánar nafn ættar sinnar. Það er vegna þess, að eg sá
hana þannig útleikna, að eg er hingað kominn. Renndi þig
ekki grun í það?“
„Eg fór ekki í neinar grafgötur um það,“ hvæsti Ralph og
kreppti hnefana.
„Eg efast samt um, að þú getir þér rétt til um erindi mitt,“
sagði Sam og hristi höfuðið. „Eg kom til þess að bjóða þér
nægt fé, svo að þú gætir drukkið þig í hel, svo að Cecily þyrfti
sem styzt að lifa við þá skömm, að vera eiginkona þín.“
Reiðin sauð í Ralph og það korraði í honum, en í svip gat
hann engu orði upp komið, og það var sem krampatitringur
færi um allan líkama hans. Loks stamaði hann hásum rómi,
slitrótt:
„Eg .... eg .... eg .... fyrir þetta skal eg lemja úr þér
líftóruna.“
„Lækkaðu seglin,“ sagði Sam háðuglega. „Þú ættir að láta
renna af þér áður en þú reynir nokkuð slíkt.“