Skírnir - 01.01.1957, Blaðsíða 18
16
Einar Öl. Sveinsson
Skímir
af listrænni fyrirætlun; kvæðin eru 12 að tölu, hvert 3 erindi
og öll með sama hætti (eftirlætishætti Heines, sem Jónas
hefur nú fest ást við). Án efa eiga þessi kvæði sér upphaf í
eins konar skáldsýn, og þegar Jónas fékk hana, held ég hon-
um hafi komið í hug: Nú skal ég yrkja nokkuð, sem er nýtt
og engu líkt, ein noch nicht dagewesenes, eins og Þjóðverjinn
mundi segja. Og það gerði hann einnig. Það er erfitt að finna
neitt, sem er verulega líkt þessum kvæðum í heild — eitt og
annað einkenni má finna, en það er annað mál. 1 bók sinni
Á hnotskógi hefur Helgi Hálfdanarson þýtt fáein kvæði eftir
japönsku hækú-skáldin. Mér hefur oft fundizt sum megin-
atriði í þessum kvæðum Jónasar minna á sum meginatriði í
þeirra kvæðum. Eða þá mér koma í hug sum austræn mál-
verk, kínversk eða japönsk. Þar getur að líta einhver smá-
atriði veruleikans, kannske blóm, kannske tré eða klett, und-
ursamlega skýrt og lifandi. En bak við og umhverfis er ein-
hver undarleg þokumóða eða tóm. Er ekki eins og hið undur-
fagra græna tré hafi sjálft nirvana bak við sig? En við skul-
um ekki fara lengra út í þessa sálma, heldur skoðum þessi
kvæði Jónasar sjálf.
VI.
1 kvæðaflokknum „Annes og eyjar“ er eins og saman komi
mörg einkenni kveðskapar Jónasar, renni saman í eina heild
á undarlegan og nýjan hátt, það er eins og kvæðin séu búin
til úr margvíslegum frumefnum, ólíkum að uppruna. Hér er
sjón Jónasar, hér er hið undursamlega málfar hans, hér er hin
hreina fegurð; hér er Heine kominn með bragarhátt sinn,
hér blandast kímni við alvöruna —■ með því móti sem Jónas
vill hafa það, ekki Heine —, hér má stundum finna óyndi
bak við, eða þunglyndi — en svo sem í fjarska eða undir niðri.
Sálarbaráttan, hugstríðið, sem við fundum í sumum kvæðum
Jónasar frá þessum tíma, er hér ekki sjálft, heldur svo sem
bergmál þess eða hugarblær — yfirleitt eru kvæði þessa flokks
full af bergmáli héðan og handan að úr hugarheimi Jónasar,
það er öldufalla eimur, sem heyrist; öldufallið sjálft sést ekki.