Skírnir - 01.01.1957, Blaðsíða 248
246
Ritfregnir
Skírnir
ildarlista I. heftis af Norsk ordbok eru meir en 1100 rit tilgreind, sein
orðtekin hafa verið meir eða minna, og eru þau flest prentuð, en sum i
handritum.
Það er alkunna, að í norskum mállýzkum hefur lifað fjöldi orða, sem
eru beint komin af norsku fornmáli og eru þvi náskyld íslenzku. Nægir
þar að benda á orð eins og ageleg („det er ageleg hált etter vegen“ (gam-
alt mál frá Voss og viðar), aksel (kvk.) = öxl, andhœles = öfugt (af
Sunnmæri), sbr. andhælisháttur, anna-kveld = annað kvöld (Sunnfjörð-
ur, Norðmæri og víðar), ard = arður (plógur), att á bak = aftur á bak,
audmykja = auðmýkja, austanœtt = austanátt (Sunn-Hörðalandi, 1882),
og þannig mætti lengi telja. Og það er svolítið gaman að því, þegar Vinje
talar um „atterhaldet eller konservatismen“ í blaði sínu Dölen 1868, í
sömu merkingu og islenzkir stjórnmálamenn gera nú. Þarna má líka
finna orð eins og atterhaldsflokk, atterfot (á skepnum), atla eða atlast =
ætla, aus(eJkolle = eysill (til að ausa úr brunni eða þess háttar) eða
skrafskjóða.
En það gagnar skammt að tina svona til stök orð úr orðabók. Norsk
ordbok er rit, sem fræðimenn á íslenzk fræði þurfa að kynnast og nota.
Þegar hún er komin út, verður þar saman komið mikið og gott efni um
annað það lifandi mála, sem skyldast er íslenzku. Enn er eftir hlutur fær-
eyskrar tungu, en Danir hafa litlar eða engar framkvæmdir um rann-
sóknir á henni, og liggur raunar miklu na.-r Islendingum að fást við þær
eða styðja Færeyinga til þess.
Árni BöSvarsson.
Ari C. Bouman: Observations on Syntax and Style of soine Ice-
landic Sagas, with Special Reference to the Relation between Víga-
Glúms Saga and Reykdcela Saga. Studia Islandica 15.
I upphafi 16. kapítula Viga-Glúms sögu segir svo: „Glúmr gipti Þor-
laugu dóttur sina Víga-Skútu at Mývatni norðr, ok fyrir sakar þeira sundr-
lyndis þá lét hann hana fara heim til Þverár ok lét hana eina. Þat líkaði
Glúmi þungt. .. . Síðan var með þeim Glúmi ok Skútu fæð mikil.“
Eitthvert sumar hélt Skúta til Eyjafjarðar og gerði Glúmi fyrirsát við
sel hans í Mjaðmárdal. Voru skipti þeirra allfræg. Glúmur barg sér þann
veg, að hann kastaði kápu sinni í ána og villti Skútu sýn, en hljóp sjálfur
á skóg. Síðan safnaði hann liði og veitti Skútu eftirför. Varð það þá úrráð
Skútu, að hann braut spjót sitt og hafði skaftið fyrir staf, hóaði að sauðum
og lézt vera smalamaður Eyfirðinga. Nefndist hann Margur í Mývatns-
hverfi, en Fár í Fiskilækjarhverfi. Þegar Glúmur fann menn sína, mælti
hann: „Nú hefir orðit ráðfátt. Þar hafi þér Skútu fundit, eða hvat mátti
hann sannara segja, því at í Mývatnshverfi er margr hellisskúti, en i
Eyjafirði í Fiskilækjarhverfi hittir engi skúta.“
Frásögn þessi er einnig i 26. kapítula Reykdæla sögu, að miklu leyti sam-