Skírnir - 01.01.1957, Qupperneq 16
14
Einar Öl. Sveinsson
Skímir
leysi, en voru alveg nauðsynlegir upphafsþættir í sköpun
snilldarverka hans. Jónas hefur því átt við mjög bág kjör að
búa, og hann var að komast á þann aldur, þegar menn hætta
að hugga sig við tálvonirnar, læknislyf æskunnar.
Fjölnismenn hafa án efa bundið í öndverðu miklar vonir
við Fjölni, vonað, að þeir fengju unnið með honum mikið
gagn landi og lýð. 1 framkvæmd hefur útgáfan orðið þreyt-
andi, og árangurinn ekki sýnilegur í fyrstu. Þeir félagar voru
ekki heldur ævinlega á eitt sáttir, og Tómas Sæmundsson lét
prenta einn árgang út af fyrir sig. En svo kemur áfallið 1841,
þegar Jónas er hér heima. Það er dauði vinar hans, Tómasar.
Einmitt nú, þegar vonirnar voru teknar að dofna, þá kom
þetta óbætanlega áfall. Páll Melsteð vottar, hve nærri þetta
gekk Jónasi. Erfiljóðin um Tómas sýna það ekki síður, þó að
Jónasi takist þar að sigrast á harmi sínum og öðlast samræmi
og jafnvægi. Eftir þetta finnum við ærin vitni um, að skáld-
ið, sem ort hafði nærri óslitinn og oft glaðan lofsöng til ljóss-
ins og sólarinnar, á í hugstríði. Þunglyndi, sem hann hratt
frá sér áður, kemur nú upp úr undirvitundinni. Það á lítt við
aðalkvæði hans frá þessum tíma, miklu heldur smákvæði og
brot. Hér verða lesin í hóp nokkur slíkra smákvæða, sem sýna
baráttu sundurleitra hugsana um hin hinztu rök, um óendan-
leikann, um guð og eilífðina, um líf og dauða.1) Sumt er
frumkveðið, stundum grípur Jónas til kveðskapar útlendra
manna og snýr á íslenzku, til að tjá hug sinn. Svo er Die
Grösse der Welt eftir Schiller, sem Jónas snýr; það er eins
konar geimfaraljóð og setur fyrir hugarsjón lesanda ómælis-
vídd alheimsins. Alheimsvíðáttan heitir kvæðið hjá Jónasi, og
virðist mér það gætt enn meiri ógn en frumkvæðið. Annað
er það, sem Jónas kallar Níhilisma, brot, sem styðst við kvæði
eftir Ludwig Feuerbach. Þar í er þessi vísa:
Ö mikli guð!
ó magn hörmunga!
:) Þessi kvæði voru: Eftir Tómas Sæmundsson, Á sumardagsmorgun-
inn fyrsta 1842, Einbúinn, Alsnjóa, Ö, J)ú jörð sem er og Alheimsvíð-
áttan.