Skírnir - 01.01.1957, Page 142
140
Hermann Pálsson
Skírnir
es bæði vas margspök ok óljúgfróð, — es Ivarr Ragnars
sonr loðbrókar lét drepa Eadmund enn helga Englakonung
En þat vas 870 vetra eptir burð Krists at því es ritit es í
sögu hans.“
Af þessum kafla verður ráðið, að Ari hefur annars vegar
haft íslenzkar arfsagnir, sem töldu landnám hafa hafizt um
svipað leyti og Játmundur (Eadmundr) var drepinn, og hins
vegar ritaða heimild, sem gat dánarárs hans eftir venjulegu
tímatali. Ari samræmir þessar tvær sundurleitu heimildir og
beitir þeim báðum til að timasetja upphaf landnámsaldar.
Á það hefur verið bent, að hinir þrír heimildarmenn Ara
röktu ættir sínar til „Játmundar hins helga — eða einhvers
Játmundar, sem þau töldu vera Játmund helga Englakon-
ung.111) Ættartölurnar frá Játmundi eru raktar i Landnámu
og víðar. I Hauksbók segir, að Þórður skeggi ætti Vilborgu,
dóttur Ósvalds konungs og Úlfrúnar innar óbomu, dóttur Ját-
mundar Englakonungs. Sturlubók rekur ættliði þessa á svip-
aðan hátt, en getur þess þó ekki um Játmund og Ösvald, að
þeir hafi verið konungar. Frá þeim Þórði skeggja og Vilborgu
voru þau komin Teitur, Þorkell, Þuriður og Ari fróði. Því er
eðlilegt að álykta, að þau hafi rakið ættir sínar til Játmundar
helga, þar sem þau miðuðu landnám á Islandi við dauða hans.
En ættfærsla þessi hefur þótt tortryggileg, og þess verður
hvergi vart í enskum heimildum, að Játmundur eignaðist af-
kvæmi. Þó er vafasamt að hafna hinni íslenzku arfsögn. 1
fyrsta lagi er mikil áherzla lögð á helgi Játmundar og fagurt
líferni í enskum ritum, og því er ekki hægt að ætlast til, að vik-
ið væri að barneignum hans, þótt um slíkt væri vitað. í öðm
lagi eru enskar samtímaheimildir fáorðar um Játmund, og af
þeim verður ekkert ráðið um einkalíf hans. í þriðja lagi verða
engar brigður bornar á enskan uppruna þessarar ættar, þar
sem nöfnin fjögur, Vilborg, Ósvaldur, tJlfrún og Játmundur
eru öll ensk. Auk þess er hugsanlegt, að orðið „óborin“ bendi
til þess, að tJlfrún hafi verið óskilgetin, þótt það hafi verið
skýrt á annan hátt. Hafi svo verið, er vitanlega ósennilegra,
að enskum heimildum hafi verið kunnugt um dóttureign Ját-
mundar eða viljað halda slíku á loft. Að öllu samtöldu þykir