Skírnir - 01.01.1957, Page 250
248
Ritfregnir
Skírnir
frábæra eljusemi. Það má vekja oss fslendingum gleði, að erlendur fræði-
maður skuli fórna löngu starfi í því skyni að leysa eitt vandamál í sam-
bandi við fornsögur vorar. En hitt er sorgarefni, að mér sýnist verk hins
iðjusama talnameistara vera unnið fyiir gýg. Skal ég nú leitast við að
finna þeirri skoðun minni stað.
1) Ekki er einhlítt að beita bláköldum tölfræðilegum athugunum við
bókmenntir, t. a. m. í því skyni að sanna, hvort sami höfundur hafi skrif-
að tvö rit eða kafla úr ritum. Stíll höfundar — þ. á m. lengd setninga,
hlutfall beinnar ræðu og óbeinnar, aðalsetninga og aukasetninga — breyt-
ist eftir því, hvaí5 höfundur hyggst segja og hverrdg hann vill segja það.
Bókmenntafræðingurinn verður því annað tveggja að meta og taka tillit
til þeirra persónulegu tilbrigða, sem höfundur er vís til að leyfa sér hverju
sinni, ellegar að öðrum kosti að vera mjög gætinn í ályktunum, gera t.
a. m. ekki ráð fyrir tveimur höfundum nema því aðeins að stilbrigði séu
töluvert mikil — ekki sízt þegar um er að ræða stutta kafla eins og Skútu
þátt. En Bouman gerir hvorugt. Hann dregur allt of djarflegar ályktanir
af tölum sinum. T. a. m. telur hann, að 13.—16. kapítuli Glúmu séu eftir
annan höfund en meginsagan, vegna þess að þeir hafa að meðaltali 6.3
atkvæðum færra í hverri málsgrein og 2.1 atkvæði færra í hverri setningu
en aðrir hlutar sögunnar. Athugun Boumans á öðrum Islendinga sögum
sýnir þó ljóslega, að þennan mismun er ekkert að marka. Sami mismunur
— eða meiri — kemur fyrir á atkvæðafjölda málsgreina einstakra kafla
annarra sagna, þótt hvorki Bouman né aðrir hafi talið, að tveir höfundar
væru þar að verki. 1 12. kapítula Hrafnkels sögu er 6.6 atkvæðum færra
í málsgrein hverri en að meðaltali í allri sögunni, og er þó Hrafnkels saga
ekki lík þvi að vera margra höfunda verk. 41. kapítuli Laxdælu hefur hins
vegar 11.1 atkvæði fram yfir meðaltal sögunnar, og 52. kapítuli Eglu hef-
ur 12.9 atkvæði fram yfir meðaltalið!
2) Það er einnig þungt á metum gegn rannsókn Boumans, að eftir öðr-
um leiðum má færa mjög sterkar líkur að þvi, að niðurstaða hans um sam-
band gerða Skútu þáttar sé röng. Þetta hefur þegar verið gert fyrir nokkr-
um árum í riti, sem Bouman hefur þekkt: formála Víga-Glúms sögu eftir
G. Turville-Petre, prófessor í Oxford (sbr. einnig 9. bindi fslenzkra forn-
rita, sem fyrr getur).
Turville-Petre gerir ráð fyrir, „að til hafi verið að minnsta kosti tveir
langir textar Víga-Glúms sögu á miðöldum". Þetta dregur Bouman í efa.
En nú eru til þrjú brot Glúmu í slitrum Vatnshyrnu, og þykir mér ekki
djarflega áætlað, að þar hafi sagan verið öll, þegar handritið var heilt.
Auk þess er brot lengri textans í AM. 445 c, 4to. Styttri texti sögunnar er
heill í Möðruvallabók. Þetta eru þeir tveir textar, sem Turville-Petre
talar um.
Eins og fyrr segir, gerir Bouman ráð fyrir, að 13.—16. kapítuli Glúmu
séu úr sérstöku riti, sem hann nefnir X. Segir hann í fyrstu, að Reykdæla
hafi tekið Skútu þátt annað tveggja beint úr X eða úr einhverri heimild,