Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 20
Arnfríður Guðmundsdóttir
ritningarinnar og kennivald hennar fyrir trúarsamfélag samtímans. Schiissler
Fiorenza telur að guðfræðilegt mat á textum ritningarinnar, sem gengur út frá
trúfesti við baráttu kvenna fyrir frelsi og jafnrétti, hljóti að telja útilokað að
þeir textar sem réttlæta vald karla yfir konum, eða líta á karla sem æðri kon-
um, geti fallið undir guðlega opinberun.19 Þess konar textar ýti undir frekari
kúgun kvenna og fordóma í þeirra garð, fremur en að stuðla að hugarfarsbreyt-
ingu og auknu frelsi kvenna, ekki vegna þess að þeir séu mistúlkaðir, heldur
vegna þess að upphaflegur tilgangur þeirra sé slíkur.20 Þar sem textar sem til
að byrja með eru hlutlausir eða jafnvel hliðhollir konum geta einnig nýst til
þess að styðja við valdaskipulag feðraveldisins, er það mat Schússler Fiorenzu
að nauðsynlegt sé að huga sérstaklega að því hlutverki sem textar Biblíunnar
gegna í samtímanum.211 framhaldi af þessu leggur hún áherslu á að vandlega
sé hugað að vali á textum til lesturs í guðsþjónustunni og annarri kirkjulegri
þjónustu, þar sem aðeins textar sem boða réttlæti og fullkomið jafnrétti kvenna
og karla, eigi rétt á sér í því samhengi.22
Schússler Fiorenza telur þörf á að sú túlkunarfræði sem tekur mið af boð-
uninni sé bætt upp með túlkunarfrœði endurminningarinnar. A meðan sú fyrr-
nefnda einkennist af vali á textum sem uppfylla ákveðin skilyrði, þá fæst sú
síðarnefnda við gagnrýna endurskoðun allrar ritningarinnar í þeim tilgangi að
endurskrifa biblíulega sögu út frá feminísku sjónarhorni. Með því að gera sér
grein fyrir hlutverki kvenna í þessari sögu, með því að rifja upp vonir þeirra
og hugsjónir, en jafnframt baráttu þeirra og þrautir, þá er minningu þeirra ekki
aðeins haldið á lofti, heldur er eining kvenna um allan heim, í fortíð, nútíð
og framtíð, gerð möguleg. Tvíþætt hlutverk túlkunarfræði endurminningar-
innar felst því annars vegar í að halda lífi í memoria passionis biblíukvenn-
anna og hins vegar að hjálpa konum að endurheimta biblíuhefðina. Þetta telur
Schússler Fiorenza afar brýnt, til þess að koma í veg fyrir þann misskilning
að Biblían hafi eingöngu að geyma kúgunarsögu karlaveldisins.23
19 I bók sinni In Memory ofHer, segir Schiissler Fiorenza að hinir karlmiðlægu textar Biblí-
unnar geti ekki talist mælikvarðar á opinberun Guðs, heldur líf og þjónusta Jesú Krists og
sú hreyfing kvenna og karla sem myndaðist í kringum hann. Af þessum sökum sé nauðsyn-
legt að þróa gagnrýnar sögulegar aðferðir fyrir feminíska túlkun á þessum textum (Sjá 41nn).
20 Schiissler Fiorenza: Bread Not Stone, 18.
21 Schiissler Fiorenza nefnir Mt 10:38 sem dæmi um texta sem er hlutlaus í afstöðunni til
kvenna en getur engu að síður verið notaður gegn þeim, en þar segir: „Hver sem tekur
ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður.“ Misnotkun á þessum texta getur falist
í því að kona sem býr við heimilisofbeldi sé hvött til þess að taka upp kross sinn og þjást,
líkt og Kristur gerði, í þeim tilgangi að bjarga hjónabandi sínu (Sjá Schússler Fiorenza:
Bread Not Stone, 18).
22 Schussler Fiorenza: Bread Not Stone, 18-19.
23 Schussler Fiorenza: Bread Not Stone, 19-20.
18