Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 105
Gunnlaugur A. Jónsson
Vökumaður, hvað líður nóttunni?
Gamla testamentið í boðun sr. Friðriks Friðrikssonar1
Það er óumdeilt að sr. Friðrik Friðriksson (1868-1961), stofnandi KFUM, er
áhrifamesti æskulýðsleiðtogi sem íslensk kristni hefur eignast og einn öflug-
asti boðberi kristinnar trúar hér á landi á þessari öld, og raunar hefur Gylfi
Þ. Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra, kveðið enn fastar að orði og
sagt sr. Friðrik „einn mesta áhrifamann aldarinnar“.2 Má vissulega færa gild
rök fyrir þeirri skoðun.
Haustið 1897 kom Friðrik Friðriksson heim frá Kaupmannahöfn eftir að
hafa dvalið þar nokkur ár, hafði hann m.a. um skeið lesið læknisfræði og mál-
fræði en einnig kynnst starfi KFUM þar í borg og starfað innan þess félags-
skapar á árunum 1895-1897. Heimkoma Friðriks átti eftir að verða mikil lyfti-
stöng fyrir kristið æskulýðsstarf hér á landi og raunar valda algjörum þátta-
skilum. Það er því við hæfi að hans sé minnst á einhvern hátt nú þegar rétt
rúm hundrað ár eru liðin frá heimkomu hans.
Fáein orð um rannsóknir á áhrifasögu Gamla testamentisins
Á undanförnum árum hefur áhugi minn á sviði gamlatestamentisfræða einkum
beinst að áhrifasögu Gamla testamentisins og þá sérstaklega áhrifum Gamla
testamentisins á trúar- og menningarlíf hér á landi.3 Er þar um að ræða vanrækt
1 Grein þessi er byggð á erindi sem flutt var í málstofu í guðfræði í febrúar 1997, en hefur
tekið allmiklum breytingum síðan þá.
2 Gylfi Þ. Gíslason, „Einn mesti áhrifamaður aldarinnar" í: Man ég þann mann - Bókin um
séra Friðrik. Skrifuð af vinum hans. Hersteinn Pálsson bjó til prentunar. Reykjavík:
Skuggsjá 1968, s. 77-82.
3 Sjá eftirtaldar greinar mínar: „Og Faraó með sinn heimskuher í Hafinu rauða drekkti sér.“
Af áhrifasögu Gamla testamentisins, vanræktu en áhugaverðu fræðasviði. Kirkjuritið.
59,1,1993, s. 12-20; The Old Testament in Icelandic Life and Literature. Studia theologica.
A Scandinavian Journal of Theology 50,2,1996, s. 101-116 og „Heimfærsla í biblíu-
kveðskap sr. Valdimars Briem. Dæmi úr áhrifasögu Gamla testamentisins“ í: Milli himins
og jarðar. Maður, guð og menning í hnotskurn hugvísinda. Háskólaútgáfan 1997, s. 195-
210, „Hirðir og hjörð. Fáein dæmi úr áhrifasögu líkingar úr Gamla testamentinu“. Studia
theologica islandica. Ritröð Guðfrœðistofnunar 12,1998, s. 173-195.
103