Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 52
Björn Björnsson
að til standi að stjórnmálavæða kirkjuna, heldur viðurkenning á því, hversu
víðfeðmt og gjörtækt það umboð er, sem kirkjan hefur sem líkami Krists. Að
baki býr kristinn mannskilningur, sem skoðar manninn í gagnvirku samhengi
einstaklings og þjóðfélags.
Aður en sagt verður skilið við kirkjuvitundina og kirkjuna sem stofnun
má benda á, að þetta viðhorf veldur því ekki hvað síst, að rík tilhneiging er
til að skilgreina áhrifasvæði kirkjunnar og kristinnar trúar í samfélaginu næsta
þröngt, þá einkum á sviði andlegra mála hvað trúna varðar, og á vettvangi
einkalífsins hvað kristilegt siðgæði áhrærir.
Sterk kirkjuvitund, var sagt, en ekki að sama skapi sterk safnaðarvitund.
Verkefnið er að breyta þessari stöðu mála þannig að engum fái dulist, að kirkj-
an kallar fólk til samfélags, myndar söfnuð þeirra sem játast hafa Kristi. Sam-
félagið um Guðs orð, tileinkun þess og boðun, er sá grunnur sem byggt er á,
en hollustan við þann boðskap bindur um leið þá sem söfnuðinn mynda
sterkum félagsböndum. Söfnuðurinn er lærisveinasamfélag Krists, en slxkt
samfélag er samkvæmt hans eigin orðum kærleikssamfélag. „Á því munu allir
þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars“ Jh.
13:35. Elskan, umhyggjan, mannleg samskipti þar sem hver og einn finnur
sig tekinn gildan, þar sem hæfileikar hvers og eins fá að njóta sín, enda erum
við öll limir á sama líkama, greinar á sama vínviði. Þetta eru kennimörk krist-
ins safnaðar. í samtíðinni sem einkennist því miður af skertum persónulegum
tengslum, sundruðum fjölskyldum, vegalausum börnum, einsemd og einmana-
leik, er það ekki svo lítið fagnaðarerindi að eiga sér athvarf í samfélagi kristins
safnaðar, sem rís undir sínu merki, merki krossins. En ekki einasta sem hæli
frá óblíðum heimi, heldur miklu fremur sem aflstöð, sem gefur kirkjunni,
söfnuðinum, styrk og þor til að takast á við vonskuna í heiminum, í öruggri
vissu um að Guð sé með í för. „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisvein-
um... Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“. Mt. 28:19-20.
Það leiðir af sjálfu sér í ljósi þessa hlutverks kristins safnaðar og með tilliti
til stöðu hans í síbreytilegri samtíð, að starfshættir kirkjunnar hljóta að vera
í stöðugri endurskoðun. Og þá ríður á, að unnið sé í grasrótinni, eins og nú
er sagt, málin skoðuð og skeggrædd á túninu heima, í þeim aðstæðum sem
hver og einn söfnuður er kallaður til starfa. Guðfræðin sem slík ber æ meira
svipmót af reynsluheimi þeirra, sem hún vill eiga orðastað við. Safnaðarguð-
fræðin eflist því meir sem hún er opnari fyrir því umhverfi sem hún vill þjóna.
Safnaðaruppbygging er ofin úr mörgum þáttum. Eg vil að lokum nefna
tvo, sem brýnt er að gefa gaum. Annar erfrœðsla, hinn líknarþjónusta.
Fræðsla um kristna trú og kristin lífsgildi hlýtur alltaf að vera ríkur þáttur
50