Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 31
Krossfestingar
jafnvel „trúarhetju á borð við spámann“ og telur hann hafa flutt áríðandi boð
um örlög guðdómsins á vorri tíð. Trúmálin hafi kostað hann mikla baráttu en
hann hafi þó í meginatriðum búið yfir sannfæringu um himnaríki, um
upphafninguna.7
Það er því ekki laust við að trúarlegur ljómi sé yfir umfjöllun Brods, og
raunar einnig annarra, á Franz Kafka. Hann virðist hafa verið einstakt ljúf-
menni, maður sem í flestu ræktaði með sér góðmennsku, hógværð og hrein-
leika, og sóttist í hvívetna eftir óbrotnu og látlausu lífi; í lýsingum manna eins
og Max Brods og Gustav Janouch er maðurinn Franz Kafka hálfgerður Jesú-
gervingur.8 Hann var með afbrigðum næmur og jafnvel ofumæmur á öll
mannleg samskipti, en því verður ekki neitað að það átti jafnframt sinn þátt
í því hversu ráðvilltur, hikandi og örvæntingarfullur hann oft var, og í stór-
kostlegum vafa um eigin verðleika, svo sem sjá má í dagbókum hans.
I þessu sambandi má minna á að Kafka sleit tvisvar sinnum trúlofun sinni
við Felice Bauer, en ástarsamband þeirra er eitt hið þekktasta í bókmennta-
heimi tuttugustu aldar. Þrátt fyrir sambandsslitin virðist hún ekki áfellast hann
eins harðlega og vænta mætti. Kafka var blátt áfram ekki sjálfrátt, hann þoldi
ekki við þegar hann sá að hann gat eignast það sem hann í senn þráði og
óttaðist: eiginkonu, börn, heimili, borgaralegt öryggi. Hann var eins og
Messías með annað hlutverk í lífinu. Felice Bauer giftist síðar dugmiklum
kaupmanni og fluttist með honum til Bandaríkjanna. Um miðjan sjötta
áratuginn féllst hún á að selja Schocken-forlaginu í New York mikinn fjölda
bréfa sem Kafka skrifaði henni á árunum 1912-17 (á meðal þeirra eru einnig
önnur bréf er samband þeirra varða, m.a. bréf Kafka til Gretu Bloch, vinkonu
Felice, sem var stundum einskonar milligöngumaður í sambandinu en virðist
sjálf hafa átt stutt ástarævintýr með Kafka, líkt og stundum hendir þá sem
annast slík hlutverk. Minna má á að milliliðir og sendiboðar eru mikilvægir
í sagnaheimi Kafka). Þessi bréf hafa síðan orðið víðfræg eins og flest það sem
eftir Kafka liggur. Það veittist Felice erfitt að láta bréfabunkann af hendi; hún
tárfelldi og sagði: „Hann Franz minn var dýrlingur“ („Mein Franz war ein
Heiliger“).9
7 „Er ist ein religiöser Held vom Rang eines Propheten, der um seinen Glauben unter tausend
Anfechtungen ringt, wobei er aber des Himmels, des Transzendenten im Westentlichen
gewiB ist.“ Max Brod: Úber Franz Kafka, Frankfurt am Main og Hamborg: Fischer
Bucherei 1966, s. 223.
8 Gustav Janouch: Gesprache mit Kafka, Frankfurt am Main: Fischer Taschenbuch Verlag
1981.
9 Nahum N. Glatzer: The Loves of Franz Kafka, New York: Schocken Books 1986, s. 46.
29