Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 285
Minnið og tíminn
XVI.
Samt skynjum vér, Drottinn, tímabil og berum þau saman, segjum sum lengri,
önnur skemmri. Vér mælum einnig, hve miklu lengra eða skemmra eitt tíma-
bil er en annað, segjum það helmingi eða þrefalt lengra, ellegar þá að eitt sé
öðru jafnt. En vér mælum tímann aðeins um leið og hann líður, því hann
mælist um leið og vér lifum hann. En hver mælir fortíðina, sem er ekki lengur
til, eða framtíðina, sem er ekki orðin til? Það skyldi þá vera, að menn ætli sig
færa um að mæla það, sem er ekki til. Sem sagt: Tímann er ekki unnt að lifa
og mæla nema um leið og hann líður hjá. Þegar hann er liðinn er það ekki
unnt. Þá er hann ekki til.
XVII.
Ég er aðeins að spyrja, faðir, fullyrði ekkert. Gættu mín, Guð minn, og leiddu
mig.
Hver skyldi segja mér, að ekki séu þrjár tíðir, eins og vér lærðum börn og
kennum börnum, fortíð, nútíð, framtíð, heldur aðeins nútíð, hinar tvær séu
ekki til? Eru þær samt til, en þannig, að framtíðin komi úr einhverju leyni,
þegar hún verður nútíð, og nútíðin hverfi aftur í eitthvert leyni, þegar hún
verður fortíð? Hvar hafa þeir, sem segja það fyrir, sem ókomið er, séð það,
ef það er ekki orðið til? Enginn sér það, sem er ekki til. Og þeir, sem segja
frá liðnum tíma gætu ekkert satt sagt, ef þeir sæu hann ekki í anda. En væri
hann ekki til gæti enginn séð til hans. Bæði framtíð og fortíð eru sem sé til.
XVIII.
Leyf mér, Drottinn, að spyrja frekar, þú sem ert vonin mín. Lát ekki hug mín-
um fipast. Ef framtíð og fortíð eru til vildi ég vita, hvar þær eru. Þótt mér sé
það enn um megn veit ég þó það, að hvar sem þær kunna að vera eru þær
ekki þar sem framtíð eða fortíð, heldur nútíð. Því sé framtíðin líka framtíð
þar, er hún enn ekki orðin. Og sé fortíðin einnig fortíð þar, er hún ekki lengur.
Hvar svo sem þær tíðir kunna að vera og hvað sem þær eru, þá eru þær aðeins
til sem nútíð. Þegar satt er talað um liðna tíð eru það ekki að vísu atburðirnir
sjálfir, sem sóttir eru í minnið, þeir eru horfnir hjá, heldur orð, mótuð úr
myndum þeirra, sem þeir hafa fest í hugann um leið og þeir snertu skynjunina.
Bernska mín, til dæmis að taka, er ekki lengur til, hún er sú fortíð, sem er
horfin. En mynd hennar sé ég í nútíð, þegar ég minnist hennar og lýsi henni.
Hún er nútíð í minni mér.
Skyldu svipuð rök vera til þess, að unnt sé að segja fyrir um framtíðina,
283