Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 230
Pétur Pétursson
til hólmgöngu við hann. I hjartanu logaði magnþrungin sannleikást. í höfðinu
bjuggu afburða vitsmunir, og af vörum rann mál hans eins og ránar-fall.“16
Tvö söfn með samanlagt 68 prédikunum komu út eftir Harald. Árin og
eilífðin [I], kom út 1920 og Árin og eilífðin II kom út að Haraldi látnum árið
1928. Þessar prédikanir liggja til grundvallar þeirri greiningu á meginstefjum
í guðfræði Haralds sem hér fer á eftir. Þessi stef eru sköpunin, guðlegt eðli
mannssálarinnar, þróun/vöxtur og huggun.
Sköpun og þróun
Sérsvið Haralds innan guðfræðinnar var Gamlatestamentisfræði. Þess vegna
hefði mátt búast við að guðfræði Gamla testamentisins væri gildur þáttur í
prédikunum hans. En svo er ekki. Aðeins sex sinnum leggur hann út frá text-
um Gamla testamentisins og þar af fjórum sinnum út frá Davíðssálmum. í
prédikunum vísar hann þó oft til Gamla testamentisins þegar hann rekur þróun
trúarhugmynda en meginuppistaðan er útlegging á textum guðspjallanna.
Þegar Haraldur fjallar t.d. um réttlæti í mannlegu samfélagi þá leitar hann ekki
til spámanna Gamla testamentisins eftir efni í röksemdafærslu, eins og beinast
liggur við, heldur leggur hann beint út af kærleiksboðskap Krists eins og hann
er að finna í guðspjöllunum. Það að Guð opinberast í manninum Jesú frá
Nasaret er forsenda fagnaðarerindisins um Guð og undanfari þess að maðurinn
komist í nýja afstöðu gagnvart Guði, þ.e. að hann komist nær Guði en áður
var hugsanlegt. í prédikun út frá frásögninni um ummyndun Jesú á fjallinu
(Matt. 17,1-9) útskýrir Haraldur mikilvægi opinberunar Guðs í Jesú Kristi og
þýðingu hennar fyrir manninn. Þar kemur hann inn á það sem honum fannst
vera aðalatriðið í opinberun Guðs í Kristi:
Vér þurfum á frelsara að halda, sem er máttugur og kunnugur æðri heimi en
þessum, og veit það; vér þörfnumst opinberara, sem getur talað svo sem út frá
hjarta tilverunnar og með rödd Guðs, en jafnframt lifir því lífi, sem er svo
samtvinnað voru lífi, að alt, sem er orðið að veruleik í honum, það er til sem
máttugleiki í oss — Og nú kemur meginvandaatriðið. Erum vér verur sömu
tegundar og Jesús, þótt vér vitanlega séum fjarri því að hafa náð vaxtarhæð hans?
Þessari miklu spurningu svarar hin nýja stefna játandi.17
Með hinni nýju stefnu átti Haraldur bæði við frjálslyndu guðfræðina og
spíritismann. Hann hélt því fram að maðurinn, eða sál mannsins væri guðleg,
16 Jón Auðuns 1968: „Sálarrannsóknarmaðurinn Haraldur Níelsson. Haraldur Níelsson. Stríðs-
maður eilífðarvissunnar 1868-1968. (Ritstj. Benjamín Kristjánsson) Reykjavík, s. 163.
17 Árin og eilífðin [1] 1920, s. 41.
228