Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 119
Vökumaður, hvað líður nóttunni ?
„Ó, að jeg mætti í kvöld syngja ljóðaljóð fyrir lausnara mínum.“ Þannig
hefst prédikun hans út frá Ljóðaljóðunum á bænaviku í KFUM 19. nóv. 1911.
Þar óskar hann þess að hann hefði marga hina bestu hæfileika listamannsins
svo hann væri fær um að „yrkja og syngja kvæði um unnusta sálar minnar,“
eins og hann kemst að orði og bætir við:
þá skyldi jeg tala og syngja um Jesúm, um Jesúm. Jeg skyldi þá lýsa honum í
þeim hæðstu og fegurstu tónum, lýsa tign hans, lýsa fegurð hans, lýsa yndisleik
hans, lýsa kærleika hans, lýsa honum svo að hvert mannsbarn eins og sæi hann,
og eins og hvert mannsbarn heyrði rödd hans og hvert mannsbarn í tilbiðjandi
aðdáun kastaði sér niður fyrir fætur hans og laugaði þær í tárum sínum, að hvert
mannsbarn risi upp og breiddi faðminn á móti honum og hvert mannsbarn gæfi
honum hjarta sitt og allt, allt, allt...
Síðar í prédikuninni ber sr. Friðrik fram þessa játningu: „Allar mínar upp-
sprettur eru í þjer, herra minn guð, herra minn guð. Allar mínar uppsprettur
eru í þjer og streyma til þín unnusti, elskhugi sálar minnar! Og hvert hjarta
mundi bráðna af gleði og hver andardráttur verða löngunarandvarp eptir hon-
um.“ Þrátt fyrir að játningar sr. Friðriks til frelsara síns og lýsingar hans á
honum séu mun hástemmdari en maður á að venjast, segir hann: „Jeg get ekki
sungið um Jesúm, ekki talað um hann, ekki lýst honum svo að verðugt sje.“
Hið mikla dálæti sr. Friðriks á Ljóðaljóðunum og hin mikla notkun hans
á þeim er vissulega meðal þess sem vekur mesta athygli við athugun á prédik-
un hans út frá Gamla testamentinu, ekki síst þegar haft er í huga að Ljóða-
1 jóðin hafa eftir því sem ég best veit verið sáralítið notuð af íslenskum prestum
og það heyrir til algerra undantekninga að prédikað sé út frá þeim. Einhver
myndi e.t.v. sjá í þessu þau kaþólsku áhrif sem almennt er viðurkennt að sr.
Friðrik hafi orðið fyrir30 enda hafa Ljóðaljóðin sterkari stöðu innan kaþólsku
kirkjunnar en meðal mótmælenda.
30 Um hinar kaþólsku tilhneigingar sr. Friðriks má t.d. lesa í grein Péturs Péturssonar, „Trúar-
legar hreyfingar í Reykjavík tvo fyrstu áratugi 20. aldar. Annar hluti K.F.U.M. og skyld
félög.“ Saga, tímarit Sögufélagsins 19,1981, einkum s. 204-207. Sjá einnig Friðrik Frið-
riksson, Undirbúningsárin, Rvk. 1928, s. 262,287-288, Hersteinn Pálsson (ritstj.), Man ég
þann mann - Bókin um séra Friðrik, Rvk. 1968, s. 80-81. Þórarinn Björnsson, Upphaf
kristilegs stúdentastarfs í Reykjavík. Lokaritgerð í kirkjusögu. Guðfræðideild Háskóla
íslands 1988, s. 115. Meðal þeirra sem veittust að sr. Friðriki fyrir samneyti hans við
kaþólsku prestana í Reykjavík var sr. Lárus Halldórsson (1851-1908) Fríkirkjuprestur. Sjá
„Kaþólska missiónin í Reykjavík." Fríkirkjan, júní 1901, s. 84-85. Sr. Lárus viðurkennir
að sr. Friðrik sé „að ýmsu leyti einn af hinum mikilhæfustu prestum þjóðkirkjunnar“ en
segir hann jafnframt „meira en hálf-kaþólskan.“ Danskir samherjar sr. Friðriks höfðu líka
miklar áhyggjur af meintum kaþólskum trúarskoðunum hans.
117