Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 51
Söfnuður og samtíð
una í menningarsköpun samtímans, hvort sú kirkjuvitund sé í samhljóman við
köllun kirkjunnar. Teljum við ekki svo vera þarf að ræða hvernig við skuli
bregðast. Það ber ekki vott um ábyrgðarríkan málflutning að réttlæta tilvist
kirkjunnar með skírskotun til ríkrar menningararfleifðar ef farið er með þá
arfleifð sem fornminjar en ekki sem aflgjafa til nýsköpunar. Kristinni trú er
einfaldlega allt of þröngur stakkur skorinn ef hún er gerð viðskila við þá
sívirku mótun einstaklinga og þjóðar, sem við nefnum menningu.
Hjá öðrum birtist hin stofnunargerða kirkjuvitund fremur í því, að þeir líta
á kirkjuna sem þjónustustofnun, og þá eina af mörgum sem mynda það þjón-
ustusamfélag sem við búum við í æ ríkara mæli. Fólk sækir til kirkjunnar skýrt
afmarkaða þjónustu, er varðar tiltekin þáttaskil á lífsferlinum frá vöggu til
grafar. Þjónustan er veitt af embættismönnum eins og gerist og gengur í þjón-
ustu þess bákns, sem við nefnum hið opinbera. Embættismennirnir eru í þessu
tilviki prestarnir og þess vegna er kirkjan sem þjónustustofnun iðulega skilin
og skilgreind sem prestakirkja. í kirkjunni eru það prestarnir sem veita þjón-
ustuna. Við hin ætlumst til að fá góða og skilvirka þjónustu, síðan kveðjum
við, og snúum til næstu þjónustustofnunar.
Kirkja Krists er sannarlega kölluð til þjónustu, en mjög er hún annars kon-
ar en sú nokkuð ýkta mynd af kirkjunni sem þjónustustofnun, sem hér er
dregin upp. Þjónusta kirkjunnar er guðsþjónusta, þjónusta okkar sem
einstaklinga og safnaðar við Guð og náungann. Eða höfum við í þjónustu- og
kröfusamfélaginu gleymt umvöndunarorðum Frelsarans, þegar hann sagði um
sjálfan sig: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur
til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga“ Mt. 20:28.
Þjónustuhlutverk kirkjunnar sem kærleiksþjónusta, díakónía, líknarþjón-
usta, er tvíþætt. Annars vegar persónuleg og persónubundin þjónusta við þau,
sem þurfa á aðstoð okkar að halda. Hins vegar samfélagsleg, kerfisbundin
þjónusta, sem greinir r sundur, en um leið tekst á við þann félagslega veru-
leika, pólitískan, efnahagslegan, menningarlegan, o.s.frv., sem skerðir mögu-
leika manna til að njóta almennra mannréttinda, ellegar þess réttar sem hver
og einn er borinn til sem Guðs elskað barn, skapað í Guðs mynd. Hér kemur
fram hið pólitíska hlutverk kirkjunnar, aldrei flokkspólitískt, en sem félagslega
gagnrýnin afstaða til þjóðfélagsmála.
Hvernig er hægt að elska náunga sinn án þess að láta sig varða, hvers kon-
ar ytri skilyrði honum eru búin til að lifa mannsæmandi lífi? Islenska þjóð-
kirkjan hefur sett á stofn Þjóðmálanefnd kirkjunnar einmitt í því skyni að
skerpa þessa áherslu í þjónustu kirkjunnar. Sú nefndarskipan boðar um leið
að til þess er mælst, að umræða um þjóðmálin, á grundvelli kristinnar trúar
og lífsviðhorfa, verði hafin sem víðast í söfnuðum landsins. í þessu felst ekki
49