Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 292
Sigurbjörn Einarsson
En þegar eitt atkvæði hljómar af öðru, fyrst stutt, síðan langt, hvernig held
ég þá í hið stutta og nota það til að mæla hið langa og finna, að það er helmingi
lengra, úr því að langa atkvæðið byrjar ekki að óma fyrr en hitt er hætt? Hvort
mæli ég hið langa sjálft sem nútíð fyrst ég get ekki mælt það fyrr en því er
lokið? Og þegar því er lokið er það farið hjá. Hvað er það þá, sem ég mæli?
Hvar er stutta atkvæðið, sem ég mæli við? Hvar hið langa, sem ég mæli? Bæði
hafa ómað, eru flogin brott, farin hjá, eru ekki framar. En ég mæli og svara
í trausti til reynslu af heyrnarskyni mínu, að annað sé tvöfalt lengra hinu,
miðað við dvöl sína í tíma. En þetta get ég því aðeins, að þau eru farin hjá,
þeim er lokið. Það eru því ekki atkvæðin sjálf, sem ég mæli, - þau eru ekki
framar, - heldur eitthvað í minni mínu, sem festist og er þar.
Það er í þér, hugur minn, sem ég mæli tímann. Rugla mig ekki. Svo er
þetta. Rugla mig ekki með sviptingum tilfinninga þinna! Ég segi: f þér mæli
ég tímann. Áhrifin á þig af því, sem líður hjá, eru eftir, þegar það er hjá liðið.
Áhrifin mæli ég sem nútíð en ekki það, sem olli þeim og er fortíð. Þetta mæli
ég, þegar ég mæli tímann. Annað hvort er þetta tíminn sjálfur eða ég mæli
ekki tímann.
Hvað gerum vér, er vér mælum þagnir og segjum, að þessi þögn hafi varað
jafnlengi og tiltekin rödd? Seilist þá ekki hugsunin í að mæla röddina, eins
og hún væri að óma, til þess að geta metið tímalengd hinna hljóðu bila? Vér
förum einnig í huganum með kvæði og vers, án þess að beita rödd og vörum,
svo og hvers kyns texta og hugarfóstur af öllu tagi og metum, hve langan tíma
það tekur og berum eitt saman við annað með öllu eins og þegar talað er
upphátt. Vilji einhver láta til sín heyra lengi og leggi fyrirfram niður fyrir sér,
hve langt málið skuli verða, hefur hann þegar í hljóði farið um stundarbil, lagt
það á minni og síðan lætur hann til sín heyra og röddin ómar, uns hún er komin
að settu marki. Ég vildi sagt hafa: Hún hefur ómað og mun óma. Því það, sem
hún hefur þegar skilað af sér, er búið að óma, hitt, sem er eftir, mun óma.
Þannig fer þessu fram: Athygli mannsins, sem er nútíð, færir framtíð yfir í
fortíð. Framtíðin minnkar, fortíðin vex, uns framtíðin er upp urin og allt orðið
fortíð.
XXVIII.
En hvernig má framtíðin verða upp urin, þegar hún er ekki orðin til? Og
hvernig vex fortíðin, sem er ekki lengur? Með því einu móti, að í huganum,
sem veldur þessu, er þrennt: Hann væntir, tekur eftir og man. Það sem hann
væntir fer um það, sem hann tekur eftir, yfir í það, sem hann man. Neitar því
nokkur, að framtíðin sé enn ekki orðin? Samt er í huganum nú eftirvænting
290