Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 152
Hjalti Hugason
undrinu. Upprisa Krists fól ekki í sér lausn hans úr þessum heimi — hann reis
upp til að starfa áfram á jörð. Upprisan skildi Krist heldur ekki frá mönnum,
Jesús Kristur er áfram bróðir mannsins af holdi og blóði. Enda er upprisan
talin hafa tekið til persónu Krists í heild sinni. Hér er því ekki aðeins um
andlega upprisu að ræða. Eins og Kristur var sannur maður af líkama og anda
þannig var upprisa hans líka bæði andlegur og efnislegur veruleiki.
I öðrum kafla predikunarinnar hefur Sigurbjörn umræðu við samtíð sína.
Hann viðurkennir gildi efans frammi fyrir upprisunni. (Sigurbjörn Einarsson
1976: s. 88) Þrátt fyrir það reynir hann þó ekki að sanna upprisuna heldur
bregst hans við efanum með persónulegri játningu. Astæðuna fyrir því að hann
hefur tekist það hlutverk á hendur að boða Krist upprisinn segir Sigurbjörn
þó ekki vera að finna í sterkri trú hans sjálfs.
Hitt veldur, að boðskapurinn, að hann, sem er á bak við boðskapinn, varð sterk-
ari en ég, er sterkari en allt, sem móti mælir. (Sigurbjörn Einarsson 1976: s. 88)
Hinn upprisni hefur orkað á höfundinn á þann hátt að hann á ekki annars úr-
kosti en að beygja sig, lúta, þakka, blessa og boða.
í þriðja kafla er áheyrandinn ávarpaður:
Þú hefur vaknað á páskadagsmorgni árla. Hvað vakti þig? (Sigurbjörn Einarsson
1976: s. 89)
Nú ræður sálgæslan ferðinni og predikarinn gefur sér að áheyrandinn sé með-
vitaður um og glími við stöðuga návist dauðans. Hér er dauðinn þó ekki aðeins
túlkaður sem endalok jarðlífsins heldur er átt við nálægð hins illa í öllum þess
myndum:
Hann er þar, sem eitrið í öllum þess mörgu myndum seytlar um æðar mannlífsins,
það eitur, sú mengun, sú lífsröskun, sem heitir synd.“ (Sigurbjöm Einarsson 1976:
s. 89)
í upprisuboðskapnum felst að Kristur vill lækna, ná okkur úr greip dauðans.
... Guð vildi veita ferskri heilsu inn í sýktar æðar mannkyns. (Sigurbjörn Einars-
son 1976: s. 90) ... Jesús afneitaði þessu afli (þ.e. dauðanum), gekk á hólm við
það, sjálfur ósmitaður, án syndar. Knúinn Guðs kærleika tók hann bikar dauðans,
drakk eitrið í botn. (Sigurbjörn Einarsson 1976: s.89-90)
I lokakaflanum er áheyrandinn loks kvaddur til tilverufræðilegrar glímu: