Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 123
Vökumaður, hvað líður nóttunni?
Svo framarlega sem þú, er hingað ert kominn á þetta mót, ert vaknaður lærisveinn
Drottins Jesú, eða þú vaknar til lifandi trúar á hann á þessu móti, þá ert þú í flokki
þeim, sem getur sagt með orðum texta míns: Það er kallað til mín frá Seír: Vöku-
maður, hvað líður nóttunni, vökumaður? Þannig er kallað til þín til hins einstaka,
þannig er kallað til gjörvallrar þessarar samkomu í heild: Vökumaður, vökumaður,
vakir þú? Heyrðu, það er einhver sem kallar fra Seír. Rödd hans hljómar inn í
þessa hlustandi þögn í kirkjunni. Vökumaður Drottins Jesú, vakir þú eða sefur
þú á verðinum?
Hraungerðismótin gegndu þýðingarmiklu hlutverki í íslensku kirkjulífi
þessarar aldar. A vissan hátt má líta á þau sem andóf gegn hinni svokölluðu
frjálslyndu guðfræði er ruddi sér hér til rúms um og uppúr aldamótum. Að
mótinu stóðu ýmsir nánir samstarfsmenn sr. Friðriks og samherjar.38 Það þarf
því ekki að koma svo mjög á óvart að sr. Friðrik skuli senda andstæðri guð-
fræðistefnu tóninn á þessum stað þó að hann hefði sig yfirleitt ekki mjög í
frammi þegar trúmáladeilur voru annars vegar.
Útvalning íslendinga
Utvalningarstefið er tvímælalaust eitt af þýðingarmestu stefjum Gamla testa-
mentisins. Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að í hugmyndinni
um útvalningu Israelsþjóðarinnar sé að finna sjálfa þungamiðjuna í boðskap
Gamla testamentisins, samnefnarann fyrir hina fjölþættu efnisþætti þess.39
flutti í Hallgrímskirkju 30. jan. 1961 út frá Jes 40:6-7. Þar segir hann: „Þá er hann [Jesús]
kemur, þá visnar allur mannlegur ljómi, þá hrynja allir háreistir hrokaveggir, hvort sem
það eru veggir valdsins eða stærilætisins, allt sem setur sig upp á móti Guði og hans smurða,
allir hrokaveggir ósannra vísinda, afsláttar guðfrœði og kenninga af eigin geðþótta, sem
skammsýnir menn halda að séu rauðar rósir, en eru ekki annað en gorkúlur eða þá í hæsta
lagi gerviblóm, sem ekki þurfa einu sinni að visna því að þau eru visin frá byrjun.“
38 Þar var fremstur í flokki sr. Sigurður Pálsson prestur í Hraungerði. Af öðrum þátttakendum
má nefna sr. Sigurbjörn Einarsson, Bjama Eyjólfsson, Gunnar Sigurjónsson, Ólaf Ólafsson
kristniboða, sr. Sigurjón Þ. Árnason, sr. Gunnar Jóhannesson, sr. Magnús Guðmundsson
og sr. Guðmund Einarsson á Mosfelli.
39 H. Wildberger er meðal þeirra sem lítur svo á, sbr. grein hans „Auf dem Wege zur einer
biblischen Theologie." Evangelische Theologie 19,1959, s. 70-90. Annars er leitin að
þungamiðju Gamla testamentisins, eða samnefnara fyrir hinn ólíka boðskap sem þar er að
finna, ætíð ein af hinum brennandi spurningum í gamlatestamentisfræðunum. Um langt
skeið var áhrifamest tillaga svissenska biblíufræðingins W. Eichrodts (1890-1978) sem
hann setti fram í þriggja binda verki sínu um guðfræði Gamla testamentisins er kom út á
árunum 1933-39. Þar gekk hann út frá því að sáttmálshugtakið væri það sem héldi saman
öllu því fjölbreytilega efni sem í Gamla testamentinu er að finna. Af öðrum tillögum sem
fengið hafa mikinn hljómgrunn má nefna 1. boðorðið, sbr. bók W.H. Schmidt, Alttestament-
licher Glaube in seiner Geschichte. Neukirchener Verlag 6. útg. 1987. Ensk útgáfa þess-
arar bókar The Faith ofthe Old Testament. A History. Oxford: Basil Blackwell 1983, hefur
um árabil verið notuð sem kennslubók í guðfræðideild Háskóla íslands.
121