Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 281
Minnið og tíminn
XVIII.
Konan týndi peningi og leitaði hans með ljósi (Lúk. 15, 8). Ekki hefði hún
fundið hann, ef hún hefði ekki minnst hans. Hvernig hefði hún vitað, þegar
hann var fundinn, að það var hann, ef hún hefði ekki munað hann? Ég man
að ég hef mörgu týnt og fundið aftur. Því veit ég þetta. Því þegar ég var að
leita og einhver sagði: „Er það þetta?“ „Eða kannski þetta?“, þá kvað ég nei
við því, uns komið var með það, sem ég saknaði. Hefði ég ekki munað það,
hvað svo sem það var, hefði ég ekki fundið það, þótt mér væri fært það, því
ég hefði ekki kannast við það. Þannig er ævinlega, þegar menn leita að ein-
hverju týndu og finna það. Sýnilegur hlutur hverfur sjónum en ekki úr minni
þar með, mynd hans geymist innanbrjósts og er leitað, þangað til hún er aftur
fyrir sjónum. Þegar hann finnst þekkist hann aftur af myndinni innra. Menn
segjast ekki hafa fundið það, sem var týnt, ef þeir kannast ekki við það. Og
ekki geta þeir kannast við það, ef þeir muna það ekki. Það var horfið sjónum
en varðveitt í minni.
XIX.
En þegar minnið sjálft týnir einhverju, eins og verður þegar vér gleymum og
reynum að rifja upp, hvar leitum vér þá, ef ekki í minninu sjálfu? Og ef þar
er boðið fram annað í staðinn höfnum vér því, uns það kemur, sem leitað er.
Og þegar það kemur segjum vér: „Þetta er það“. Og getum því aðeins sagt
það, að vér könnumst við það, en getum ekki kannast við það án þess að muna
það. En nú höfðum vér gleymt því. Má vera að það hafi ekki verið með öllu
horfið og að vér höfum leitað hins horfna með stuðningi hins, sem eftir var,
af því að minnið fann, að það hélt ekki heilu því, sem saman átti, fór að haltra
x vanagangi sínum og vildi fá aftur það, sem vantaði. Vér sjáum eða hugsum
til manns, sem vér þekkjum en höfum gleymt nafni hans og reynum að grafa
það upp. Önnur nöfn, sem í huga koma, standa ekki heima, vér erum ekki
vanir að tengja þau þessum manni. Hverju nafni er vísað á bug, uns það kem-
ur, sem hugurinn er sáttur við, því vaninn hefur kennt, að maður og nafn eiga
saman. En hvaðan kemur nafnið? Úr minninu. Þótt annar kunni að minna á
það svo að vér könnumst við það, kemur það samt þaðan. Því ekki erum vér
að trúa nýrri frétt, heldur minntir á svo að vér sjáum, að það er rétt sem mælt
er. Væri nafnið með öllu máð úr minni myndum vér ekki kannast við það,
þótt minntir værum á það. Því jafnvel það, sem vér munum að er gleymt, er
ekki að fullu gleymt. Því gætum vér aldrei leitað þess, sem er týnt, ef það væri
með öllu gleymt.
279