Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 26
Ástráður Eysteinsson
„Heimsbókmenntir“ eru því oftar en ekki verk í þýðingum. En þær öðlast
einnig dreifingu, eða eru „þýddar“, í þeim skilningi að þær verða uppspretta
mynda: málmynda, hugmynda og mannsmynda, sem leita inn í önnur verk.
Mikilvæg verk eru jafnan „endurrituð“ á þennan hátt, stundum þannig að
augljóslega er verið að vísa til þeirra eða fá eitthvað að „láni“ frá þeim, þótt
textatengslin geti einnig verið dulari og stundum er um að ræða enduróm sem
erfitt er að staðfesta með skýrum dæmum enda getur hann verið rödd hefðar-
innar fremur en nokkurs eins verks.
Samkvæmt ofangreindum viðmiðum er Biblían eitt helsta heimsbók-
menntaverk Vesturlanda. Þótt sígildi hennar hafi öðru fremur verið viðhaldið
af trúarlegum ástæðum og þær búi að baki þýðingum og endurþýðingum á
ótal tungumál, þá er bókmenntagildi Biblíunnar rækilega staðfest af
textatengslum við önnur bókmenntaverk.1 Hún er „undirtexti“ og „tengda-
texti“ í svo mörgum mikilvægum skáldverkum að önnur eins slóð er ekki til,
þótt Hómer, Dante og Shakespeare hafi víða verið boðið til samsætis í
verkum síðari alda. Slíkar slóðir eru að mörgu leyti hnýsilegt athugunarefni.
Það má jafnvel nú þegar víða rekja spor eftir höfunda sem uppi voru á fyrri
hluta þessarar aldar og virðast orðnir „sígildir“, til dæmis James Joyce,
Marcel Proust, Virginia Woolf, T.S. Eliot og Franz Kafka. Allir þessir höf-
undar hafa verið bendlaðir við módernismann og uppreisn hans gegn hefð-
bundinni fagurfræði og því er athyglisvert að vísanir þeirra til hefðarinnar eru
ekki færri fyrir vikið. Vitundin um nútímalega sköpun andspænis hefðinni
virðist jafnvel ýta undir margbreytileg og róttæk tengsl við verk fyrri tíma.
Þeir þræðir úr heimsbókmenntavefnum sem til umræðu eru í þessari grein
liggja á milli Biblíunnar — og sérstaklega Nýja testamentisins — og verka
Franz Kafka (1883-1924).
II
Sá sem þetta skrifar er ekki sérfróður um trúarlegar uppsprettur að textum
Kafka og hefur mest fengist við verk hans á öðrum forsendum. Athuganir þær
sem hér fara á eftir eiga rætur sínar í tveimur fremur óvæntum stefnumótum
við Franz Kafka sem „trúarlegan“ rithöfund. Fyrir nokkrum árum bauð Gunn-
ar Kristjánsson mér að sjá um þátt í útvarpsþáttaröð um „Imynd Jesú í bók-
menntum“, en sjálfur hefur hann skrifað doktorsritgerð um slíka mannsmynd
í Heimsljósi Halldórs Laxness.2 Það varð úr að ég setti saman útvarpserindi
1 Um „textatengsP* hef ég fjallað í greininni „Mylluhjólið. Um lestur og textatengsP1, Tímarit
Máls og menningar, 4. hefti 1993, s. 73-85
2 Sbr. Gunnar Kristjánsson: Religiöse Gestalten und christliche Motive im Romanwerk
„Heimsljós" von Halldór Laxness. Doktorsritgerð frá Ruhr-Universitat, Bochum 1978.
24