Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 38
Ástráður Eysteinsson
það lengur að þetta er einnig hans sár — og það er sár sem einnig sást móta
fyrir á kinn Rósu eftir að hinn ruddalegi hestasveinn hafði bitið hana. Sárið
stendur opið í sögulok: „Nakinn, ofurseldur frosti þessara ógæfusömu tíma
með jarðneskan vagn, ójarðneska hesta, flakka ég um, gamall maður.“
Sárið er meðal annars hið óræða bil milli hins jarðneska og hins ójarð-
neska, milli veraldlegrar skynjunar og andlegs lífs; sár sem iðar af ókennilegu
lífi. Þetta sár getur þó einnig birst sem bilið milli dýrs og manns, sem svo
mikilvægt er í mörgum textum Kafka eða sem mörkin milli lífs og dauða, eins
og í sögunni af Grakkusi veiðimanni sem flakkar um þau mörk og er í raun
fastur í þessu einkennilega millibili, er dauður og lifandi í senn, hvílir á sjúkra-
börum eða líkbörum og bátkæna hans berst um hin „jarðnesku vötn“. Hann
hafði verið veiðimaður en ætla mætti af orðum hans að hann stundi nú aðra
list á fljótandi beði sínum: „Enginn mun lesa það sem ég skrifa hér, enginn
koma mér til hjálpar [...] Sú hugsun að vilja hjálpa mér er sjúkdómur sem
læknast ekki nema í rúminu.“ Sjálfur er hann í rúmi og hér má heyra enduróm
frá sjúkrasögunni í „Sveitalækninum“. En hvernig tengjast skrifin athöfnum
persóna í þessum sögum? Eru þau skrif, sem menn finna sig knúna til að sinna,
tengd veiðimennsku og lækningum? Vafalaust, en vígsla til skrifanna er jafn-
framt hliðstæð því hvernig Grakkus fleygði frá sér veiðipjönkunum og
„smeygði mér í líkklæðin eins og stúlka í brúðarkjólinn. Hér lá ég og beið.
Þá dundi ólánið yfir.“19
VII
Ólán Grakkusar er að fá ekki að deyja. En líkklæðin myndgerast sem brúðar-
kjóll. Brúðurin liggur og bíður og „ólánið“ kemur því í stað dauðans sem
beðið er. Ólánið er „annað“ líf og öðruvísi, líf sem er á mörkunum og er þó
jafnframt afmarkað svið, sköpun í einsemd, glíma við tungumál og táknkerfi.
Þetta er dæmi um hið margflókna myndmál um listina, lífið og lífslistina, um
lífsfarveg og lífsvettvang, myndmál sem víða má sjá í textum Kafka. Hér gefst
ekki tími til að týnast í þeim myndheimi svo sem vert væri, þannig að ég kýs
að hreiðra sem snöggvast um mig á þeim vettvangi á mörkunum sem Kafka
var einkar hugleikinn. Þar á ég við rúmið, hvíluna, ekki aðeins líkbörurnar
og brúðarbeðinn sem Grakkus hvílir á, heldur líka rúmin í ýmsum öðrum
textum; rúmið sem sveitalæknirinn lendir í, rúmið sem Gregor Samsa vaknar
í, breyttur „maður“, rúmið sem Jósef K. er handtekinn í, rúm kyndarans í upp-
hafskafla Ameríku og þannig mætti áfram telja. Rúmið virðist hafa orðið Kafka
19 Franz Kafka: „Veiðimaðurinn Grakkus", Úr glatkistunni, þýð. Astráður Eysteinsson og
Eysteinn Þorvaldsson, sérhefti Bjarts og frú Emilíu, nr. 10, 1993, s. 34-37.