Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 111
Vökumaður, hvað líður nóttunni ?
segir sr. Friðrik um sálm 46: „Enginn sálmur finnst mér stórkostlegri og
áhrifameiri en hann eða huggunarríkari.“
Fyrstu prédikun sína út frá þessum sálmi flutti sr. Friðrik sem friðarræðu
í byggðum Vestur-íslendinga í Winnipeg í Kanada 17. maí 1914, og þá ræðu
flutti hann í útvíkkaðri mynd í Minnesota 4. október sama ár á friðardegi
Bandaríkjanna. Þar lagði hann út af v. 9-12 í sálminum og sagði meðal annars:
Það gengur ákall út yfir alla jörð í dag til gjörvallrar hinnar kristilegu kirkju að
talað verði um heimsfriðinn og beðið verði fyrir því að hann komi, að þjóðirnar
leggi niður vopnin.
í þessari prédikun fjallaði sr. Friðrik um orsakir styrjaldar í heiminum og
sá orsökina í syndinni „sem liggur við dyrnar og sem mennirnir ekki drottna
yfir heldur láta hana drottna yfir sér.“ Hann bætti því við að „svo lengi sem
þessi orsök, syndin, er ekki að fullu undirokuð og yfirbuguð, getur ófriður
ekki hætt að vera til í einhverri mynd.“ En Guð hefur lagt grundvöllinn að
friðinum og sá grundvöllur er Jesús Kristur, friðarhöfðinginn, sem gefið hefur
okkur meginreglu kærleikans: Að elska Guð af öllu hjarta og náungann eins
og sjálfan sig. En hvað getum við þá gert í þágu friðarins? Því svarar sr.
Friðrik í stuttu máli þannig:
Það fyrsta sem vjer getum gjört, er það að helga oss guði og taka með fullri alvöru
á móti friðarhöfðingja mannanna. Sjerhver maður, sem snýr sér til guðs og lifir
svo sem guðs barn í heiminum, stuðlar að þessu; hann verður sjálfur boðberi
friðarins, því þá fer hann að lifa eptir þeim meginreglum sem gefa frið á jörð: í
kærleika, auðmýkt og sjálfsfórn, um leið og hann afneitar því sem er orsök alls
ófriðar: eigingirni, hroka og sjálfselsku ... Vjer getum líka í öðru lagi gjört gagn
með bæn. Öll hin kristna kirkja stendur enn í dag með upplyptum bænahöndum
til hans, sem framkvæmir furðuverk á jörð, brýtur bogann, slær af oddinn, brenn-
ir skjöldu í eldi.
I hinu kunna hugvekjusafni sr. Friðriks Guð er oss hœli og styrkur er fyrsta
prédikunin einnig út frá þessum sálmi. Hún er flutt 25 árum síðar og aftur er
skollin á heimsstyrjöld og þó upphaf styrjaldarinnar 1939 gefi ekki mikið
tilefni til bjartsýni þá er boðun sr. Friðriks full af bjartsýni og trúartrausti:
Vér skulum hefja augu vor í óbifandi trausti á hann og skyggnast eftir hjálp hans,
því að fullreynt er, að hann er sá, sem megnar að frelsa oss og varðveita oss í
öllum nauðum og allri þrenging. Hjá honum einum er hæli.
109