Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 87
Þýðingaraðferðir Lúthers
fagnaðarerindisins. Þess vegna ræður ekki geðþótti og heldur ekki málfræðin
ein, heldur trúmennska við málefnið, boðskapinn, die Sache:
Samt sem áður hef ekki vikið bókstöfunum til hliðar að geðþótta. Þvert á móti
hef ég ásamt hjálparmönnum mínum séð til þess að þar sem allt er lagt á einn
stað hef ég farið eftir bókstöfunum og ekki framgengið í frelsi. Það á t.d. við um
6. kapitula Jóhannesarguðspjalls þar sem Kristur segir: „Þennan hefur Guð, faðir-
inn innsiglað“ (Jh 6.27). Það væri betri þýska að segja: „Þennan hefur Guð, fað-
irinn merkt“ eða „Þennan á Guð, faðirinn við.“ En ég vildi frekar víkja frá þýsku
máli en orðinu sjálfu. Að þýða er nefnilega ekki list sem hver og einn getur fengist
við eins og þessir óðu dýrlingar ætla. Til þess að geta þýtt þarf rétt, frómt, trútt,
einlægt, guðhrætt, kristið, upplýst, reynt og þjálfað hjarta. Þess vegna álít ég að
enginn villutrúarmaður né vingltrúarmaður geti verið sannur þýðandi. Það kom
vel fram í þýðingu þeirri af Sálmunum sem kom út í Worms. Þar var ýmislegt
vel gert og með mikilli iðni og nálgast víða þýskuna mína. En Gyðingar voru þar
að baki sem ekki halda Krist í miklum metum þótt mikil list og iðni hafi verið
þar til staðar.18
Það er því ekki aðeins lögmál þýskrar tungu sem krefst þess að orðinu
solum eða sola sé haldið, heldur er það orð Guðs, boðskapurinn sjálfur, sem
krefst þess en bókstafir Ritningarinnar eru að mati Lúthers umgjörð um orð
Guðs. Þess vegna verður í þýðingum að gæta þess að umgjörðin skyggi ekki
á orðið sjálft:
Látum þetta nægja um þýðingar og eðli tungumáls. Því að það var ekki aðeins
af trúmennsku við tungumálið að ég bætti orðinu solum (aðeins) inn í Rómverja-
bréfið 3 heldur krefst textinn þess og kenning heilags Páls kallar beinlínis á það.
Hann segir það vera höfuðgrein kristinnar kenningar að vér réttlætumst fyrir trúna
á Krist og án verka lögmálsins. Hann sker verkin svo algerlega burtu að hann
jafnvel segir að verk lögmálsins, sem samt sem áður er lögmál og orð Guðs, hjálpi
oss ekki til réttlætis (Rm 3.2). Hann tekur dæmi af Abraham sem hafi svo réttlæst
án lögmáls að jafnvel hið æðsta verk sem Guð hafði þá nýlega skipað fyrir um
á undan og yfir öllum öðrum lögum og verkum, þ.e.a.s. umskurnin, hafi ekki
hjálpað honum til réttlætis heldur hafi hann réttlæst án umskurnar og án allra
verka fyrir trúna eins og hann segir í 4. kapitula (Rm 4.2): „Ef Abraham hefur
réttlæst fyrir verk, þá má hann hrósa sér, en ekki fyrir Guði.“ Þegar maður nemur
þannig burt öll verk, þá hlýtur merkingin að vera sú að trúin ein réttlæti. Hver
sem því vill tala hreint og klárt um slíka útilokun verkanna verður að segja: Trúin
ein réttlætir en ekki verkin. Það er þannig málefnið sjálft og ekki aðeins eðli
tungumálsins sem krefst þess að vér tölum þannig.
18 Lúther á hér við þýðingu á Davíðssálmum sem kom út í Worms árið 1527 og var unnin
af Ludwig Haetzer (1500-1529) og Hans Denk (1497-1527). Þeir þýddu úr hebresku. Báð-
ir voru endurskírendur og afneituðu þrenningarlærdómnum og því segir hann að Gyðing-
ar hafi staðið þar að baki.
85