Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 118
Gunnlaugur A. Jónsson
Allegórísk27 túlkun Ljóðaljóðanna
Mikil notkun sr. Friðriks á Ljóðaljóðunum er óneitanlega það sem mesta at-
hygli vekur þegar kannað er hvaða rit hinnar hebresku ritningar hann notar
mest. Það er vissulega óvenjulegt að aðeins Davíðssálmar, Jesajaritið og Móse-
bækur skuli vera meira notuð en Ljóðaljóðin, sem yfirleitt eru sáralítið notuð
í kirkjunni og hending að maður heyri prédikað út frá þeim. Og sé miðað við
hverja og eina af Mósebókunum fimm, eins og rétt er, þá reynist engin þeirra
jafnmikið notuð af sr. Friðriki og Ljóðaljóðin. í safni hans er að finna alls níu
prédikanir og hugvekjur þar sem lagt er út af Ljóðaljóðum. Fyrirfram hefði
mátt búast við að notkun þeirra væri að mestu bundin við hjónavígslur, en
það reynist ekki vera svo, því að í engu dæmanna er um það að ræða.
Ljóðaljóðin eru eina rit Gamla testamentisins, auk Prédikarans og Rutar-
bókar, sem aldrei er vitnað til í Nýja testamentinu. Drottinn er í besta falli
nefndur einu sinni á nafn í Ljóðaljóðunum og er á þeim eina stað í algjöru
aukahlutverki, til þess að lýsa elskunni (8:6). Raunar er mjög umdeilt hvort
það sé rétt þýðing á þeim stað, í flestum þýðingum er þýtt á þann veg að nafn
Drottins kemur ekki fyrir.28
Þá hefur notkun ljóðanna í helgihaldi kirkjunnar verið mjög takmörkuð.
Eftir að hinni allegórísku túlkun hefur almennt verið hafnað má segja að
kirkjan hafi verið í nokkrum vandræðum með þessi ljóð og afleiðingin oft orð-
ið sú að þau hafa verið sniðgengin.29 Hin allegóríska túlkun Ljóðaljóðanna
meðal Gyðinga gekk út frá því að Ljóðaljóðin fjölluðu um samband Jahve og
Israelsþjóðarinnar. Allegórísk túlkun kristinnar kirkju var á þá leið að verið
væri að lýsa sambandi Krists og kirkju hans eða sambandi Jesú og mannssálar-
innar.
Það leynir sér ekki að sr. Friðrik hefur hrifist mjög af Ljóðaljóðunum og
hann túlkar þau allegórískt, talar um Jesú sem unnusta og elskhuga sálar sinn-
ar.
27 Allegoría (gr., „tal á annan hátt“), myndrænt eða táknrænt tjáningarform, þar sem lýsing
eða frásögn táknar eitthvað annað en það sem sett er fram beint eða bókstaflega.
28 B1866 þýðir: „því elskan er eins sterk og dauðinn, og hennar vandlæti fastheldið sem helja;
þess er eldsglóð, Guðs logi.“ B1981 talar hins vegar ekki um Guðsloga heldur „brennandi
loga“ og er þar í samræmi við flestar nýrri þýðingar erlendar. Þannig segir nýja danska
þýðingin frá 1993 „en voldsom brand“ og Good News Bible „a raging fire“ og hin viður-
kennda RSV-þýðing „a most vehement flame.“
29 Grein sem lýsir vel vandanum sem hinn sögulegi biblíuskilningur hefur haft í för með sér
varðandi notkun Ljóðaljóðanna í kirkjunni (raunar dönsku kirkjunni, en það sama á örugg-
lega við hér á landi) er grein J. Strange, „Höjsangen i gudstjeneste og forskning“ í Det
gamle Testament og den kristne fortolkning. Kobenhavn: Museum Tusculanums Forlag
1988, s. 70-84.
116