Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 279
Minnið og tíminn
héldi ekki mynd af henni, þótt sjálf sé hún fjarlæg líkama þeirra. Ég nefni
tölur, sem vér teljum með. Þær eru sjálfar í huganum (minni), ekki myndir
þeirra. Ég nefni mynd sólar og sú er í minni mér, því ekki minnist ég myndar
af mynd hennar, heldur sjálfrar myndarinnar, hún er í mér, þegar ég minnist.
Ég nefni minnið og er ljóst, hvað ég er að nefna. En hvar er mér það ljóst
nema í minninu sjálfu? Er minnið þá hjá sjálfu sér í líkingu sinni? Hvort ekki
fremur eins og það er í sjálfu sér?
XVI.
Ég nefni gleymsku og veit líka þá, hvað ég nefni. Hvað veit ég um það, sem
ég man ekki? Enn er ég ekki að tala um óm orðsins, heldur merkingu þess.
Hafi ég gleymt merkingunni er ómurinn mér marklaus. Þegar ég minnist
minnis míns er minni mitt sjálft hjá sjálfu sér af sjálfu sér. En er ég minnist
gleymskunnar er bæði minni og gleymska með mér, minnið, sem veldur því,
að ég man, og gleymskan, sem ég man. En hvað er gleymska annað en það,
að minnið er tapað? Hvernig er hún þá með mér, svo að ég muni hana, fyrst
ég get ekkert munað, þegar hún er með mér? Vér höldum í minni því, sem
vér munum. Ef vér myndum ekki gleymskuna gætum vér aldrei skilið, hvað
þetta orð merkir, er vér heyrðum það. Minnið geymir sem sé gleymskuna. Hún
er þar, að hún gleymist ekki, en þar sem hún er, gleymist allt. Er þetta svo að
skilja, að hún sé ekki sjálf í minni, þegar ég man hana, heldur mynd hennar?
Því væri gleymskan þar sjálf ylli hún því, að ég myndi ekki, heldur gleymdi.
Hver leysir úr þessu? Hver skilur, hvernig þetta er?.
Ég glími við þetta, Drottinn, glími í sjálfum mér. Ég er orðinn mér sú jörð,
sem ég erja með erfiði og miklum sveita (l.Mós. 3,17nn.). Því hér er ég ekki
að rannsaka svið himins, bilið milli stjarna né þunga jarðar. Það er ég, sem
man, ég, hugur minn. Það er ekki að undra, þótt mér sé fjarri það, sem ég er
ekki sjálfur. En hvað er mér nær en sjálfur ég? Samt skil ég ekki afl minnis
míns, þótt án þess geti ég ekki einu sinni nefnt sjálfan mig. Því hvað skal ég
segja, þegar ég geri mér ljóst, að ég man gleymsku mína? Á ég að segja, að
það sem ég man sé mér ekki í minni? Eða að gleymskan sé þess vegna í minni
mér, að ég skuli ekki gleyma? Hvort tveggja er alger fjarstæða. Og þriðja
lausnin? Hvernig get ég sagt, að mynd gleymskunnar sé í minni mínu, þegar
ég man hana, en ekki gleymskan sjálf? Með hvaða rökum gæti ég sagt þetta,
fyrst það er augljóst, að hverju sinni sem mynd einhvers festist í minni, hlýtur
það, sem skilar myndinni af sér, sjálft að hafa verið viðstatt fyrst. Þannig man
ég Kartagó og alla staði, sem ég hef verið á. Þannig man ég og andlit manna,
sem ég hef séð, og annað, sem ég hef skynjað. Eins er um heilbrigði eða
277