Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 150
Hjalti Hugason
söguleg nauðsyn. Loks telur hann fráleitt að Kristur sjálfur hafi verið í þörf
fyrir líkama eftir upprisuna:
Að hann hafi þurft þessa líkama við, beinlínis horfið aftur í hinn dána líkama, á
sama hátt og hann kallaði til baka anda Lazarusar og annarra þeirra, er skildir
voru við líkamann og hann vakti upp frá dauðum, kemur vitanlega ekki til mála.
(Björn Magnússon 1965: s. 158)
Þvert á móti telur hann upprisuna hafa verið líkt og frelsun fyrir Krist. Með
henni telur hann að Kristur hafi losnað
... úr þeim fjötrum, sem dvöl hans í mannlegum jarðlíkama hlaut að vera anda
lians, og stigið frjáls og sigrandi upp til fullkomins samfélags við hinmeska föður-
inn, sem hann var kominn frá, er hann steig niður til jarðarbúa. (Björn Magnús-
son 1965: s. 155. Sjá og Björn Magnússon 1965: s. 160)
í samræmi við áherslu sína á hina andlegu upprisu telur höfundur athyglisvert
að Páll skuli ekki gera greinarmun á þeim tilvikum er Kristur sýndi sig upp
risinn fyrir uppstigningardag og þeim vitrunum eða opinberunum er urðu síðar
eða frá dögum Páls sjálfs og allt fram á þennan dag. Telur hann þessar síðari
opinberanir sama eðlis og skynjanir fólks á návist látinna manna almennt:
Að öllu þessu athuguðu má teljast einsætt, að birtingar Jesú eftir dauða hans voru
sama eðlis og birtingar annarra manna, er vitrazt hafa mönnum látnir, bæði fyrr
og síðar. (Björn Magnússon 1965: s. 160)
Allar eru þessar birtingar hins dýrðlega, uppstigna frelsara sama eðlis og hinar
fyrstu birtingar hans eftir upprisuna að því leyti, að hann gerir sig jarðneskum
mönnum skynjanlegan með einhverju móti, klæðir sinn himneska dýrðarlíkama
jarðneskum hjúp, er ýmist eingöngu varpar frá sér því ljósi, er mannlegt auga
getur skynjað, eða verður jafnvel svo fastur, að á verði þreifað. Og um þetta fer
eftir sömu lögmálum, eins og þegar aðrir framliðnir andar birtast jarðneskum
mönnum, enda þótt þeir muni oftast þurfa aðstoð næmra manna, sem vér köllum
miðla, til að byggja upp þann sýnilega líkama. En um það eru dæmin svo mörg
og rækilega vottfest, að vart verða þau dregin í efa með rökum. (Björn Magnússon
1965: s. 160-161)
Höfundur álítur kjarnann í upprisuboðskap Páls vera þann að eftir dauðann
bíði manna raunverulegt framhaldslíf á andlegu tilverusviði en ekki áhrifalaus
skuggatilvera þar sem þeir verði líkir líkamslausum svipum eða vofum sem
engu geti til vegar komið. Þennan boðskap telur hann eiga brýnt erindi við
samtíð sína enda sé upprisa Krists fullgild sönnun fyrir eilífri tilveru allra
manna:
148