Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 289
MinniÖ og tíminn
einni stund, heldur yrði sól að renna skeið sitt 24 sinnum til þess að gera dag.
Ef dagur er hvort tveggja, sem nefnt var, gæti hvorki orðið dagur úr því, að
sól færi hring sinn á einni stund, né ef sól stæði kyrr jafnlengi og hún er vön
að vera á för sinni frá morgni til morguns.
En nú spyr ég ekki, hvað það sé, sem menn kalla dag. Eg spyr hins: Hvað
er sá tími, sem vér mælum sólarganginn með? Ef vér segjum, að sól hafi farið
braut sína á hálfri þeirri tíð, sem hún er vön, þýðir það, að hún hafi verið að
því í tólf stundir? Og ef vér berum saman þessar tíðir tvær segjum vér, að
önnur sé tvöföld á móti hinni, rétt eins og sól mætti fara tvöfalt hraðar frá
austri til austurs.
Engan læt ég því segja mér, að hreyfing himintungla og tíminn sé hið
sama. Þegar sól stóð kyrr að bæn manns, svo að hann mætti ganga sigrandi
af hólmi í orrustu (Jós. lo,12), var það sólin, sem nam staðar, tíminn leið áfram.
Orrustunni var fram haldið og hún til lykta leidd á þeim tíma, sem til þess
nægði.
Ég sé þannig, að tíminn er einhver dvöl. Sé ég það raunar? Eða held ég
mig aðeins sjá það?
Þú, ljósið, sannleikurinn, munt sýna mér það.
XXIV.
Býður þú mér að samsinna, þegar sagt er, að tíminn sé hreyfing hlutar?
Nei. Þú segir, að allir hlutir hreyfi sig í tíma. Það heyri ég. Hitt heyri ég
ekki, að tíminn sé sama og hreyfing hlutar. Svo segir þú ekki. Þegar hlutur
hreyfist mæli ég á tíma, hve lengi hreyfingin varir frá því hún hefst og þar til
henni lýkur. Ef ég sá ekki, þegar hún hófst, og hún hélt áfram án þess ég sæi,
þegar henni lauk, gat ég ekki mælt hana. Það gat ég aðeins frá því ég tók fyrst
eftir henni og þar til ég hætti að mæla. Horfi ég lengi á hana, get ég aðeins
sagt, að það hafi verið löng stund en ekki hve löng. Því tímalengd er ákvörðuð
með samanburði: Þetta er jafnlangt hinu, eitt er helmingi lengra en annað
o.s.frv. En ef vér getum gert skil á fjarlægð þeirra staða, þaðan og þangað sem
hlutur á hreyfingu fer, ellegar partar hans, svo sem þegar eitthvað snýst um
öxul, þá er unnt að segja, hve lengi hluturinn eða partar hans eru að fara úr
einum stað á annan.
Hreyfing hlutar er því eitt en hitt allt annað, sem haft er í huga, þegar ver-
ið er að mæla, hve lengi hún varir. Hver finnur ekki, hvort af þessu er tími?
Einnig þegar hlutur hreyfist stundum en er kyrr á milli, mælum vér ekki ein-
ungis, hve lengi hreyfing hans varir, heldur og kyrrstaðan, og segjum, að hann
287
L