Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 71
Rudolf Bultmann og Jón Sveinbjörnsson
an tímabundnum birtingarformum þeirra.38 Gabler gerði greinarmun á sannri
og hreinni biblíuguðfræði. Hin sanna fjallar um öll atriði biblíulegs átrúnaðar;
hin hreina finnur óbreytanlegar hugmyndir þess átrúnaðar sem eiga að verða
uppistaða kristinnar trúfræði líðandi stundar. Þetta markmið hreinnar biblíu-
guðfrœði var mótað af guðfræðilegri kröfu um einingu kristinna manna og
þeirrar skoðunar að fjölbreytni og fjölhyggja væri neikvæð.
Leitin að varanlegum sannindum Biblíunnar tók á sig all skuggalega mynd
innan gagnrýninnar söguguðfræði 19. aldar. Sú meginhugmynd sem menn
töldu sig finna í frumkristnum ritum varð ekki eingöngu tæki sem tryggði
kristna einingu heldur varð hún einnig að samnefnara hins algilda boðskapar
Nýja testamentisins og þeirra sanninda sem undirstrikuðu sérstöðu og yfir-
burði kristinna trúarhugmynda. Nú er farið að fjalla um kjarna átrúnaðar al-
mennt og um aðalinntak kristinnar trúar samanborið við önnur trúarbrögð.39
Öðrum trúarskoðunum, sérstaklega Gyðinga, farnaðist ekki vel í þessum
samanburði. Kristindómur var talinn vera sú besta trú sem völ er á og hin einu
sönnu trúarbrögð. Spurt var hvernig Biblían - helgirit kristinna manna - gat
höfðað til allra manna. Jú, sem helgirit alheimsátrúnaðar sem var æðri öðr-
um átrúnaðarformum birti hún algild sannindi sem áttu að eiga við um alla.
Jafnframt spurðu menn sig hvernig alheimstrúarbragð eins og kristin-
dómur sem var ekki bundið tiltekinni þjóð gat komið frá Gyðingdómi sem
tengdist tiltekinni þjóð. Ferdinand Christian Baur (1792-1860) hafði mikil
áhrif á þessa umræðu, en hann hélt áfram hugleiðingum Gablers um samband
hins algilda og hins sögulega. í bókinni Páll, Postuli Jesú Krists, velti Baur
þeirri spurningu fyrir sér hvemig alheimsátrúnaður eins og kristni gat þróast
frá einni þjóð. Hvers vegna hélt kristindómur ekki áfram að vera tiltekið form
af Gyðingdómi heldur þróaðist frá móðurtrú sinni sem sjálfstætt átrúnaðar-
form ólíkt Gyðingdómi og laus undan sérstökum tengslum við eina tiltekna
þjóð? Jú, gyðinglegar messíasarvæntingar voru einfaldlega of takmarkaðar í
38 Gabler studdist við aðgreiningu Morus í De notionibus universis in theologia þar sem hann
bar saman ferlið við að greina algild sannindi innan Biblíunnar við viðleitni samtíðar
heimspekinga að draga fram algildi tímabundinna sanninda. Sjá Dissertationes theologiae
et philologicae. Leipzig: Grieshammer, 1798, I, bls. 239-307.
39 Bók Friedrich Schleiermacher, Úber die Religion. Reden an die Gebildeten unter ihren
Verachtern (Berlin: Unger, 1799), er sennilega fyrsta bókin sem er samin um átrúnað sem
slíkan. Ludwig Feuerbach, nemandi Hegels, er sennilega fyrstur manna til að skrifa um
kjarna kristins átrúnaðar (Das Wesen des Christentums, Leipzig, 1841; Zweite vermehrte
Auflage, Leipzig, 1843) og um megininntak átrúnaðar almennt (Vorlesungen iiber das
Wesen der Religion, nebst Zusatzen und Anmerkungen. Leipzig, 1851). Fyrir hans dag
höfðu ekki margir hugsað sér að tiltekin trú hefði einhvern einn kjarna. Sjá Wilfred Cant-
well Smith, The Meaning and End of Religion. Minneapolis: Fortress Press, 1991.
69