Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 284
Sigurbjörn Einarsson
því ekki verið löng. Því er ekki unnt að segja, að liðin tíð hafi verið löng, þegar
tíminn er orðinn fortíð er hann ekki lengur til og því verður ekkert í honum
fundið, sem getur kallast langt. Hitt væri rétt að segja: Sú tíð var löng meðan
hún var, þegar hún var nútíð var hún löng. Þá var hún ekki enn liðin hjá og
hætt að vera til, þar var m.ö.o. eitthvað, sem gat verið langt. En um leið og
hún var liðin hjá hætti hún að vera löng, því hún hætti að vera til.
Athugum því, mannlega sál, hvort nútíð geti verið löng. Þér er gefið að
skynja og mæla tímalengd. Hverju viltu svara mér? Er hundrað ára nútíð
langur tími? Gæt fyrst að því, hvort hundrað ár geti verið nútíð. Meðan fyrsta
árið stendur yfir er það nútíð en hin önnur níutíu og níu árin eru framtíð og
því ekki orðin til. Meðan annað árið líður er eitt þegar orðið fortíð, annað
nútíð, hin eru framtíð. Gildir einu, hvert hinna hundrað ára er kallað nútíð,
liðnu árin eru fortíð, hin ókomnu framtíð. Því geta hundrað ár ekki verið nútíð.
Athuga þá, hvort árið, sem nú er, geti verið nútíð. Svo er og um það, að
meðan fyrsti mánuður þess er að líða, eru hinir framtíð. Og þegar annar er
kominn er hinn fyrsti horfinn og hinir ókomnir. Árið, sem er að líða, getur
þannig ekki í heild verið nútíð. Og sé það ekki í heild sinni nútíð getur ár ekki
verið nútíð. Tólf eru mánuðir í ári. Hver einn þeirra er í sjálfu sér nútíð, meðan
hann stendur yfir, en hinir annað hvort fortíð eða framtíð. Samt er nú ekki
heldur líðandi mánuður nútíð, heldur einn dagur senn. Sé það hinn fyrsti eru
hinir framtíð. Sé það hinn síðasti, eru hinir fortíð, og sá sem er í miðið er á
milli fortíðar og framtíðar.
Nútíðin, eina tíðin, sem unnt er að kalla langa, skreppur þannig saman og
varir um eins dags bil naumlega. En hlutum hann einnig niður. Dagur er ekki
allur nútíð. Stundir dags og nætur eru 24. Hinni fyrstu þeirra eru allar hinar
framtíð, hinni síðustu fortíð. Og hver ein þar í milli á fortíð að baki og framtíð
framundan. Hver einstök stund er enda fljúgandi ögn. Það af henni, sem er
flogið hjá, er fortíð, hitt sem er eftir er framtíð. Geti menn hugsað sér tíð, sem
verður ekki deilt frekar í minnstu brot andartaka, er hún hin eina, sem kalla
má nútíð. En hún þýtur svo óðfluga úr framtíð í fortíð, að þar er engan varan-
leik að finna. Því hafi hún varanleik verður henni deilt í fortíð og framtíð, en
nútíð hefur enga lengd.
Hvar er þá sá tími, sem kallast má langur? Framtíðin? Um framtíðina
verður ekki sagt: Hún er löng, því enn er þar ekkert langt. Vér segjum: Hún
verður löng. En hvenær verður hún það? Ef hún til þeirrar stundar er framtíð
verður hún ekki löng, því þá er áfram ekkert til, sem getur orðið langt. En
verði hún þá fyrst löng, þegar hún hefst úr þeirri framtíð, sem er ekki enn til
og verður nútíð, þá hrópar nútíðin - það höfum vér þegar heyrt, - að hún geti
ekki verið löng.
282