Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 27
Krossfestingar
sem fjallaði einkum um afbrigði Kristsmyndarinnar í skáldsögunni Réttar-
höldin eftir Franz Kafka.
Skömmu síðar las ég grein eftir Jón Sveinbjörnsson, prófessor, þar sem
hann ræðir nýjar rannsóknir og flokkanir á orðaforða Biblíunnar og tengir þær
biblíuþýðingum. Tekur hann einkum dæmi af orðum um líkamann, enda hefur
hann ásamt fleirum unnið að könnun slíkra orða í íslenskum biblíuþýðingum.
Ymislegt í þessari grein varð til þess að ég tók að hugsa nánar um textatengsl
Kafka við Biblíuna, ekki síst við sögu Krists. Athugun á þýðingum er oft
einstaklega frjó aðferð til að öðlast nýtt næmi fyrir merkingu. Grein Jóns er
krökk af dæmum um merkilegar „holdlegar“ tilfæringar sem sjá má stað þegar
Biblíunni er fylgt milli mála. Þetta á raunar einnig við um breytingar innan
eins máls. Jón nefnir að í íslensku þýðingunni frá 1827 er Jóh. 1.14 þýtt svo:
„og orðið varð maður sem bjó með oss“, en í þýðingunni 1863 er þessu breytt
til fyrra horfs: „og orðið varð hold“. Þetta eitt hleypir af stað ýmsum hugleið-
ingum um tengsl tungumáls, guðdóms og mannsmyndar í Nýja testamentinu.
Maðurinn er gjarnan sagður vera annað og meira en hold en er það ef til vill
svo að hold verði fyrir hvar sem á honum er snert, jafnvel í tungumálinu?
Jón rekur hvaða jafngildi grísku orðin „sóma“ og „sarx“ hafa fundið í
íslenskri þýðingu. Þótt „sóma“ merki oftast „líkami“ og „sarx“ oftast „hold“,
reynast merkingarsvið hinna grísku orða afar flókin, eins og glöggt kemur í
ljós þegar litið er til þeirra úr öðru tungumáli. „Sóma“ getur þannig merkt
„líkami“, „hold“, „lík“ og „hræ“ og „sarx“ er einnig „líkami“ og „hold“ en
getur jafnframt vísað til „fullorðins manns“ eða verið „[ajndlit í óeiginlegri
merkingu, persóna, einstaklingur“ og „[mjannlegt eðli með áherslu á líkam-
lega þætti", og falið í sér ýmsar aðrar vísanir til jarðnesks lífs, holds og blóðs,
líkamlegra ástríðna.3 Ymsar afleiddar merkingar sem Jón nefnir eru hér
ótaldar.
Samantekt Jóns leiðir í ljós heillandi merkingarskrið og táknflóru á
vegum þessara orða og vekur lesanda til vitundar um það hvernig tjáning
lílcamlegrar tilveru myndar merkingarsamhengi þeirra andlegu gilda sem
ritningin boðar. Og hér er komin hin almenna ástæða þess að grein Jóns leiddi
huga minn að verkum Kafka. Rétt eins og Biblían er í huga margra mjög
„andlegur“ texti sem ekki er talinn snerta hversdagslegt amstur fólks, nema
3 Jón Sveinbjömsson: „Ný viðhorf við biblíuþýðingar", Biblíuþýðingar í sögu og samtíð
(Studia theologica 4, ritstj. Gunnlaugur A. Jónsson), Reykjavík: Guðfræðistofnun Háskóla
íslands 1990, s. 85-120 (beinar tilvitnanir af s. 86 og 113). í sama riti er einnig grein eftir
Svavar Sigmundsson, „Samanburður á Nýja testamentinu 1813 og 1827“, þar sem sérstak-
lega er fjallað líkamsorð og þýðingu þeirra, en Svavar hefur unnið með Jóni að umræddum
rannsóknum.
25