Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 283
Minnið og tíminn
víkur ekki fyrir deginum á morgun og ekki kom hann á eftir deginum í gær.
Þinn dagur „í dag“ er eilífðin. Sá sonur, sem þú fæddir, er sameilífur þér. Því
þú sagðir við hann: „I dag hef ég fætt þig“ (Sálm. 2,7). Alla tíma hefur þú
skapað og fyrri öllum tímum ert þú og aldrei var sú tíð, að enginn væri tími.
XIV.
Sú tíð var sem sé aldrei, að þú hefðist ekki að, því sjálfur skópst þú tímann.
Og enginn tími er sameilífur þér, því þú varir og ef tíminn mætti vara, væri
enginn tími.
Hvað er tími? Hver skýrir það léttilega í stuttu máli? Hver nær því taki á
því við umhugsun, að hann megi orðum að því koma? Hvað er hins vegar al-
gengara og kunnara í daglegu tali en orðið tími? Og vér skiljum, þegar vér
segjum það eða heyrum það af annars vörum.
Hvað er tíminn?
Þegar enginn spyr mig veit ég það. Sé ég spurður og beðinn að skýra það,
veit ég það ekki. En það þykist ég vita með vissu, að ef ekkert liði hjá, væri
engin fortíð, og ef ekkert bæri að, væri engin framtíð. Og ef ekkert varir er
engin nútíð. Hvernig geta þessar tvær tíðir, fortíð og framtíð, verið til, úr því
að fortíðin er ekki lengur til og framtíðin er enn ekki orðin til? Væri á hinn
bóginn nútíðin alltaf nútíð og yrði ekki fortíð, væri hún ekki tíð, heldur eilífð.
Geti sem sé nútíðin aðeins verið tíð með því að verða fortíð, hvernig getum
vér þá sagt, að hún sé til, fyrst orsök þess, að hún er til, er sú, að hún verður
bráðum ekki til? í rauninni er ekki unnt að segja að tíminn sé til nema af því
að hann stefnir í að vera ekki til.
XV.
Samt er talað um langan tíma og skamman, en aðeins raunar þegar rætt er um
fortíð eða framtíð. Það sem var til að mynda fyrir hundrað árum er sagt hafa
verið „fyrir löngu“ og það, sem verður eftir hundrað ár er „langt undan“. Tíu
daga fortíð eða framtíð er hins vegar stutt. En í hvaða merkingu getur það
verið langt eða stutt, sem er ekki til? Það sem er liðið er ekki lengur til, ókom-
ið er ekki orðið til. Því ætti ekki að tala um „lengd“ hér. Nær væri að segja
um fortíð: „Hún var löng“, og um framtíð: „Hún verður löng“.
Drottinn minn og ljós mitt (Míka 7,8), mun ekki sannleikur þinn einnig
brosa að mönnunum í þessu? Hvort var fortíðin löng, þegar hún var þegar
orðin fortíð? Eða meðan hún var nútíð? Hún gat ekki verið löng nema á meðan
eitthvað var, sem gat verið langt. En sem fortíð var hún ekki lengur til, gat
281