Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 48
Björn Björnsson
lausn á mannlegum vandamálum, enda heimurinn síst nær því að vera bestur
allra heima en hann áður var. Þekkingin og tæknin er að sönnu meiri og mátt-
ugri en nokkru sinni fyrr, en dómgreindin er söm við sig, skeikul og ráðvillt.
Lífríki jarðar líður undan ofríki þess hluta mannkyns, sem kann sér ekki hóf
í áfergjufullri sókn í að fá óseðjandi þörfum sínum fullnægt. LFm leið dýpkar
gjáin milli þeirra sem betur mega sín og þeirra sem búa við ítrustu örbirgð.
Ranglætið í heiminum minnkar ekki. Þetta ásamt ýmsu öðru grefur undan
einhlítri efnishyggju, sem svo mjög hefur sett svip á nútímann. Þess vegna
tala menn nú ekki aðeins um póst-módernisma, heldur einnig póst-material-
isma, þ.e. nýtt tímaskeið, nýtt gildismat, þar sem alræði efnishyggjunnar er
dregið í efa.
Samfara þessu endurmati og uppgjöri við vestræna menningararfleifð, þá
heimsmynd sem menn hafa allt til þessa gert sér að góðu, og eru fullsaddir
af, má merkja umhugsun ef ekki nýja leit mannsins að eigin sjáfsmynd.
Enda að vonum, því að með manninum býr eðlisborin hvöt til að finna
sér stað í tilverunni. Heimsmyndin er þegar allt kemur til alls heimsmyndin
mín eða þín, sá viðmiðunarrammi, þar sem ég finn sjálfan mig, þar sem ég á
heima, þar sem ég eða þú, við, erum í sátt við okkar eigin sjálfsmynd. I þessari
leit, sem er um leið uppgjör við hefðbundna skilgreiningu á stöðu mannsins
í tilverunni, er það einkennandi, að manneskjan áskilur sér rétt til að velja og
hafna því sem er í boði á markaðstorgi guðanna á eigin forsendum, eftir eigin
smekk og að eigin geðþótta. Kennivald og forsjá hvers eins valds, sem býr í
stofnunum samfélagsins, er dregið í efa og tiltrú til þeirra minnkar. Þetta á
jafnt við um veraldlegt vald, eins og það t.d. birtist í pólitískum valdastofn-
unum, og andlegt vald, að því marki sem það mætir einstaklingnum í hefð-
bundnum trúarstofnunum, og í hverri annarri kerfisbundinni hugmyndafræði,
þótt af öðrum toga sé en trúarlegum í venjulegri merkingu þess orðs.
Engum vafa er undirorpið, að þær þjóðfélagslegu sviptingar og andlegu
hræringar sem hér hefur verið drepið á, skipta kirkjuna mjög miklu, og eftir
því verður hlustað, hvernig hún bregst við. Og þar sem viðfangsefni mitt í
þessu erindi er söfnuðurinn og samtíðin þá þykir mér rétt að ræða það mál
m.a. í þessu samhengi. Kirkjan og söfnuðurinn eru guðfræðileg hugtök, sem
eiga sér um margt sín eigin merkingarsvið og skírskotanir, óháðar stað og
stund. Þetta gefum við til kynna með því að játa að Jesús Kristur er, var og
verða mun hinn sami um aldir alda. En kirkjan, hver kristinn söfnuður, er ætíð
kölluð til að bera Kristi vitni í þeirri samtíð, sem er okkar og getur aldrei verið
sú sama og fyrri játendur trúarinnar áttu við að búa. Ekki svo að skilja að
viðbrögð og túlkun þeirra sem áður fylltu flokk lærisveina Krists komi okkur