Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 211
Bókmenntafrœðileg greining Lúk. 5. 1-11
það vitnar um, hver Jesús er. í viðbrögðum og eftirfylgd fiskimannanna sýnir
sögumaður jafnframt viðtakanda, hvernig bregðast skuli við vitnisburði frá-
sögu hans um Jesúm.
í frásögunni í Lúk. 5. 1-11 er að finna þætti, sem gætu hafa gerzt meðal
fiskimanna. Ovænt veiði í framhaldi af hvatningu stríðir ekki í sjálfu sér gegn
almennri reynslu fiskimanna. Ovænta reynslu hafa menn oft túlkað, sem
reynslu af því að standa gagnvart Guði. Hið sérstæða í guðspjallinu í heild
er, að það er tengt Jesú og boðun hans á ríki Guðs í orðum og athöfnum. Hið
sérstæða í þessari frásögu er áherzlan á andstæðurnar, engin veiði - hin mikla
veiði, tjáning syndavitundar Símonar gagnvart Jesú og tignarávarpið herra /
drottinn, KÚpie, v. 8,17 sem er annað en meistari, émaTaTa, v. 5.18 Sögumaður
lætur reynsluna af fiskidrættinum valda hvörfum í viðhorfi Símonar og félaga
til Jesú. í framsetningu sögumanns guðspjallsins á Jesús sér guðdómlegan
uppruna, sbr það sem hann hefur sagt um Jesúm fram að þessu í guðspjallinu.
í upphafi textans segir sögumaður, að fólkið heyri hann flytja orð Guðs. Fyrir
sögumanni guðspjallsins er Jesús ekki aðeins jarðneskur herra, heldur einnig
hinn upphafni drottinn kirkjunnar, sbr niðurlag guðspjallsins sem og Postula-
söguna.
Sögumaður lætur frásöguna gegna hlutverki dæmisins um leið og hann
fellir hana inn í framsetningu sína af starfi Jesú Krists í Júdeu / Palestínu við
upphaf starfs hans þar.
Greining forms innihalds frásögunnar
Tími og rúm
Tími söguefnisins er tími atburða frásögunnar. Hann er hér liðinn tími miðað
við tíma sögumanns, þar sem efni frásögunnar hefst og lýkur fyrir tíma
sögumanns. Það er tími boðunar Jesú í samkunduhúsum Júdeu, það er að segja
Palestínu og getið er í Lúk. 4. Þessi tími söguefnisins í Lúk. 5. 1-11 er miklu
lengri en tími framsetningar frásögunnar, en það er sá tími, sem tekur að lesa
frásöguna. Þetta þýðir, að í frásögunni er stiklað á fáeinum völdum þáttum.
Sögurýmið er strönd Genneseretvatns og bátar á vatninu. í upphafi frásög-
unnar eru aðstæður kynntar og þar nefndir til sögunnar þeir þættir, sem skipta
máli í framhaldinu. I upphafi er Jesús á ströndinni umkringdur af fólki, sem
þrengir að honum. A ströndinni eru tveir bátar og fiskimenn, sem hreinsa net
sín. Þessu næst færir Jesús sig um borð í bát Símonar. Sitjandi í bátnum úti
17 Sjá nánar umfjöllun um tignarávarpið síðar í kaflanum um manngerðir.
18 Sjá nánar um merkingu orðsins hér síðar.
209