Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 286
Sigurbjörn Einarsson
að þar séu m.ö.o. þegar nú myndir, sem skynja megi, af því, sem enn er ekki
orðið til? Ég játa, Guð minn, að þetta veit ég ekki. Hitt veit ég, að vér hug-
leiðum að jafnaði fyrirfram væntanlegar athafnir og að sú íhugun er nútíð en
þær gjörðir, sem eru í huga, eru ekki til, þær eru framtíð. En þegar að því
kemur að hefja það verk, sem hugsað var fyrir, verður athöfnin til og þá um
leið nútíð, hún er ekki lengur framtíð. Hvernig svo sem háttar um þann
leyndardóm, að menn geti haft fyrirvitund um framtíðina, þá er það víst, að
ekkert verður séð, sem er ekki til. En það sem er þegar nú, er ekki framtíð,
heldur nútíð. Þegar menn eru sagðir sjá framtíðina, þá er það ekki hið óorðna
sjálft, sem þeir sjá, því það er ekki fram komið, heldur orsakir þess eða ein-
hver merki um það, sem þegar eru til, og ekki framtíð, heldur nútíð þeim, er
sjá. Þetta sjá menn í huga sér og ráða af því, hvað verða muni. Þessar skynjanir
eru þegar til og eru nútíð í huga þeirra, sem sjá af þeim hið ókomna.
Ég tek eitt dæmi af óteljandi:
Ég horfi á morgunroða og segi fyrir, að sól sé að koma upp. Það sem ég
horfi á er nútíð, hitt framtíð, sem ég segi fyrir. Ekki er sólin framtíð, hún er
þegar, heldur upprás hennar, sem er enn ekki orðin. En ekki gæti ég sagt fyrir
um sólaruppkomu, ef ég ætti ekki mynd hennar í huga mér, rétt eins og nú,
er ég segi þetta. En hvorki er roðinn, sem ég sé á himni, sólaruppkoman, þótt
hann fari fyrir henni, né heldur myndin í huga mínum. En hvort tveggja skynja
ég sem nútíð og af henni ræð ég, hvað sé að koma.
Okomnir atburðir eru sem sé ekki orðnir. Og það, sem er ekki orðið, er
ekki til. Sé það ekki til, verður það með engu móti séð. En unnt er að segja
fyrir um það út frá því, sem er nútíð, sem er nú og getur sést.
XIX.
Þú, sem ríkir yfir sköpun þinni, með hverjum hætti upplýsir þú sálir um það,
sem er ókomið? Svo hefur þú upplýst spámenn þína. Hvernig ferðu að því að
upplýsa um framtíð, sem er ekki til? Eða fremur: Að upplýsa um nútíð með
framtíð fyrir augum. Um það, sem er ekki til, verður ekkert upplýst. Hvernig
þú ferð að þessu er langt fyrir utan sjónarsvið mitt. Það er mér ofvaxið, sjálf-
um mér of háleitt, ég er því eigi vaxinn (Sálm. 139, 8). En hjá þér fæ ég skiln-
ing, þegar þú gefur hann, þú sem ert hið ljúfa ljós innri augna minna.
XX.
En það er nú ljóst og skýrt, að hvorki framtíð né fortíð eru til og að ekki verður
með réttu sagt, að þrjár séu tíðir, fortíð, nútíð og framtíð. Vera má, að rétt væri
284