Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 290
Sigurbjörn Einarsson
hafi verið jafnlengi kyrr og á hreyfingu, eða tvöfalt lengur eða þrefalt, ellegar
hver sem niðurstaðan var, þegar mælt var eða giskað á, „því sem næst“, eins
og sagt er.
Tíminn er því ekki hreyfing hlutar.
XXV.
En ég játa þér, Drottinn, að ég veit ekki enn, hvað tíminn er. Aftur játa ég þér,
Drottinn, að þetta segi ég í tímanum og að ég hef þegar talað lengi um tímann.
Og að „langt“ gæti það ekki verið nema af því, að tími hefur liðið. En hvernig
veit ég það, fyrst ég veit ekki, hvað tími er? Eða er aðeins svo, að ég viti ekki,
hvemig ég á að orða það, sem ég veit? Vei mér, að ég skuli ekki einu sinni
vita, hvað ég veit ekki!
Sjá, Guð minn, frammi fyrir þér lýg ég ekki. Svo er hjarta mitt sem ég
mæli. Já, þú lætur lampa minn skína. Drottinn Guð minn lýsir mér í myrkri
mínu (Sálm. 18, 29).
XXVI.
Játar ekki sála mín með sönnu fyrir þér, að ég mæli tímann? Víst geri ég það.
Og veit ekki, hvað ég er að mæla. Eg mæli hreyfingu og nota þá tíma sem
kvarða. Mæli ég þá ekki tímann sjálfan? Eða gæti ég mælt hreyfingu hlutar,
hve lengi hún varir og hve lengi hann er að fara af einum stað á annan, ef ég
gæti ekki mælt tímann, sem hann hreyfist í? Hvernig mæli ég þá tímann
sjálfan? Mælum vér lengri tíma með styttri, eins og lengd bjálka er mæld með
lengd álnar? Á þann veg má segja, að löng samstafa sé mæld við stutta, þegar
sagt er, að hún sé helmingi lengri. Eins er lengd kvæðis mæld í erindum, lengd
erinda í bragliðum, lengd bragliða í atkvæðum, og lengri liðir miðast við
styttri. Þetta mælum vér ekki í blaðsíðum, þá væri verið að mæla rými, ekki
tíma. Nei, þegar orðin eru borin fram og líða hjá segjum vér: „Langt er kvæð-
ið, þetta mörg erindi, löng erindi, þetta margir bragliðir með þessum fjölda
atkvæða, þetta atkvæði er langt, helmingi lengra en stutt“.
En með þessu næst enginn mælikvarði, sem tekur til tímans. Stutt erindi,
ef hægt er flutt, getur vel tekið lengri tíma en langt, sem flutt er í flýti. Sama
er að segja um ljóð, braglið, atkvæði.
Mér sýnist af þessu, að tími sé í því einu fólginn að teygja úr. En úr hverju
hann er að teygja veit ég ekki. Og mér er spurn: Er það ekki hugurinn sjálfur?
Því hvað er ég að mæla, ég bið þig svara, Guð minn, þegar ég segi, hvort sem
það er ágiskun eða vissa: „Þessi tími er lengri en hinn“, eða: „Hann er helm-
288