Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 276
Sigurbjörn Einarsson
X.
En nú, þegar ég heyri, að þrír séu flokkar spurninga: Er þetta til? Hvað er það?
Hvers eðlis?, þá held ég að vísu í minni myndum þeirra hljóða, sem þessi orð
eru gerð af, og ég veit, að þessi hljóð hurfu í vindinn og eru ekki framar til.
En sjálfa þá hluti, sem þessi hljóð tákna, hef ég aldrei snert með neinu skyn-
færi líkamans og hvergi séð þá nema í huganum. Því á ég þá sjálfa í minni
mínu, ekki myndir þeirra.
Hvernig þeir eru inn í mig komnir skulu þeir segja, sem geta. Ég skyggnist
um allar gáttir líkama míns og finn engar, sem þeir hafi stigið inn um. Augun
segja: Væri þetta í lit hefðum við borið boð um það. Eyrun segja: Ef það gefur
frá sér hljóð gerum við viðvart um það. Nasirnar segja: Sé lykt af því fer það
inn hjá okkur. Smekkurinn segir: Hafi það ekkert bragð er ekki mig að spyrja.
Tilfinningin segir: Sé það ekki líkamlegt hef ég ekki snert það og hafi ég ekki
snert það hef ég engin boð um það borið. Hvaðan og hvemig er þetta þá komið
í minni mitt? Ég veit ekki, hvernig það varð. Því þegar ég lærði þetta trúði
ég ekki hugsun annarra heldur kannaðist við það í huga mínum, viðurkenndi
að það var satt og fól það huganum til vörslu, að ég mætti grípa til þess, nær
ég vildi. Það var sem sé þar áður en ég lærði það, en í minni var það ekki.
Hvar var það þá? Eða hvers vegna kannaðist ég við það, þegar skýrt var frá
því, og sagði: „Þannig er þetta, það er satt“, nema af því, að þetta var þegar
í minni mínu en fjarlægt og djúpt grafið í huldum hellum að kalla, svo að ég
hefði aldrei getað látið mér hugsast það, ef annar hefði ekki kallað það fram.
XI.
Vér sjáum sem sé þetta: Þegar vér lærum það, sem skynfærin skila ekki í
myndum, heldur greinum vér það í huganum, eins og það er sjálft, þá gerist
það eitt, að umhugsun tekur saman það, sem var í minni, sundurlaust og
óskipulegt, og kemur því með einbeitni þannig fyrir, að það sem dreift var og
dulið í minni, verður handbært kunnugum hug. Hversu margt geymir minni
mitt af slíku tagi, því sem þegar er fundið og, eins og ég sagði, handbært, með
öðrum orðum slíku, sem sagt er að vér höfum lært og kunnum. En ef ég
vanræki um tíma að rifja það upp, sekkur það aftur og dreifist í fjarlæg fylgsni
og verð ég þá með umhugsun að ná því þaðan, - því aðra vist hefur það ekki,
- að nýju svo ég kunni það. Eða raka það saman eins og dreif, enda er þaðan
komið, að talað er um rökhugsun. Því cogo (taka saman) og cogito (hugsa)
eru skyld orð, eins og ago og agito, facio og factito. En hugur manns hefur
tileinkað sér einum þetta orð, með því er ekki átt við neitt, sem er tekið saman
neins staðar nema í huganum, enda réttilega kallað að hugsa.
274