Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 274
Sigurbjörn Einarsson
víkur fyrir því, sem á eftir fer. Og þegar það víkur er það geymt og til taks
um leið og ég vil.
Allt þetta gerist, þegar ég fer með eitthvað eftir minni.
Þarna er allt varðveitt, greint hvað frá öðru eftir sínu tagi og samkvæmt
því, hvaða gátt það fór um, þegar inn kom: Ljósið og allir litir og lögun hluta
fara um augun, en um eyrun hvers kyns ómar og allur þefur um nasir, allt
bragð um munninn, en tilfinningin, sem er í líkamanum öllum, skilar því öllu,
sem er hart eða mjúkt, heitt eða kalt, slétt eða hrjúft, þungt eða létt, hvort sem
það er utan á líkamanum eða inni í honum. Allt þetta hirðir minnið og geymir
í sínu mikla rými og óskiljanlegu leynihólfum og lætur það fram, þegar óskað
er og þörf krefur. Og allt fer þangað um sínar dyr til varðveislu. En ekki eru
það hlutimir sjálfir, sem inn fara, heldur myndir af því, sem skynjað er. Þær
eru til taks, þegar hugsunin rifjar þær upp.
En hver getur skýrt, hvernig þessar myndir mótast, þótt augljóst sé,
hvaða skynfæri námu þær og tóku til vörslu í huganum? Þótt ég sé í myrkri
og þögn, get ég ef ég vil kallað fram liti í minni mínu og greint sundur hvítt
og svart og alla aðra liti að vild. Ekki koma hljóð og trufla það, sem ég hef
í huga og augun hafa náð, þótt hljóð séu líka í minni og sér á sínum stað. Ég
get eins kallað á þau, ef ég vil, og þá eru þau óðar komin. Og þótt tungan
hvílist og barkinn þegi get ég sungið allt sem mig lystir. Og myndir þeirra
lita, sem ekki eru síður þar, blanda sér ekki í þetta og rugla mig, þegar ég er
að ná í annan fjársjóð, sem kom inn um eyrun. Á sama hátt get ég að vild
rifjað upp allt, sem önnur skynfæri hafa náð og geymt. Angan liljunnar greini
ég frá ilmi fjólunnar, þótt ég á þeirri stundu finni enga lykt. Hunang greini
ég frá víni og slétt frá hrjúfu, þótt ég sé hvorki að smakka né snerta, aðeins
að minnast.
Þetta geri ég hið innra með mér, í firnastórum sölum minnis míns. Þar hef
ég hjá mér himin og jörð og haf með öllu því, sem ég hef mátt skynja þar,
fyrir utan það, sem er mér gleymt. Þar mæti ég einnig sjálfum mér, man til
mín, man hvað, hvenær og hvar ég vann og hvernig mér leið þá. Þar er allt,
sem ég minnist, hvort sem ég hef reynt það sjálfur eða af öðrum numið. Ur
sama forða sæki ég mér ný og ný líkindi þess, sem ég hef reynt eða trúi sakir
fyrri reynslu. Þar af álykta ég um athafnir í framtíð, um atburði og vonir, og
um allt þetta hugsa ég svo sem væri það nútíð. „Þetta eða hitt ætla ég að gera“.
Svo segi ég við sjálfan mig í þessu hafdjúpi hugar míns, sem er uppfullt af
myndum mikilla hluta. „Þetta eður annað mun af þessu leiða“. „Betur að svo
færi eður svo“. „Guð afstýri því“. Þannig mæli ég við sjálfan mig. Og um leið
272