Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 278
Sigurbjörn Einarsson
til þess, að þú hafir þetta í huga. Og gleymi maður einhverju segir hann: Það
var mér ekki í huga, það var horfið úr huga mér. Þannig nefnum vér minnið
sjálft hug.
En fyrst svo er, hvernig má það þá vera, að þegar ég glaður hugsa til lið-
innar hryggðar, þá er gleði í huga en hryggð í minni, hugur er glaður af því
að gleði er í honum, en minnið ekki hryggt, þótt hryggð sé í því. Heyrir þá
minnið ekki huganum til? Hver vildi mæla slíkt?
Segja má að minnið sé svo sem maginn í huganum og að gleði og sorg
séu eins og sæt og beisk fæða. Þegar minnið tekur við því er sem það fari í
magann. Þar geymist það þótt bragðið hverfi.
Hlægilegt er að líkja þessu saman en öldungis ólíkt er það ekki.
En sjá! Úr minni mínu sæki ég það, að fernt komi róti á hugann: Fýsi,
gleði, ótti, sorg. Allt sem ég get um þetta sagt um leið og ég flokka hvert um
sig og greini eftir tegund, það finn ég í minni mínu og sæki þaðan. En ekki
rótar við mér neitt það umrót, sem í þessu er fólgið, þegar ég rifja upp og ræði
það. Og áður en ég minntist þessa og leiddi huga að því var það þar. Þess
vegna mátti ég taka til þess. Segja mætti, að líkt og dýr selja fæðu upp úr maga
til þess að jórtra hana, séu minningar látnar koma upp. En hvað ber þá til þess,
að sá er ræðir, - hefur sem sé minningu í munni,- finnur ekki sætleik gleð-
innar og beiskju sorgarinnar í munni hugans? Eða stafar þetta af því, að hér
var ekki líku saman jafnað? Hver væri fús að ræða slík efni, ef menn yrðu
hryggir eða hræddir hverju sinni sem þeir nefna þetta? Og samt gætum vér
ekki um það talað, ef vér fyndum í minni voru ekki annað en óminn af nöfnum
þeirra mynda, sem líkamlegt skyn hefur numið, heldur einnig þá reynslu
hlutanna sjálfra, sem vér höfum ekki tekið inn um neinar gáttir líkamans,
hugurinn hefur sjálfur lifað kenndir sínar og lagt þær á minnið ellegar það
hefur haldið þeim óbeðið.
XV.
En hvort þetta gerist með hjálp mynda eða ekki, hver svarar því greiðlega?
Eg nefni stein, ég nefni sól, þótt ekki séu hlutirnir sjálfir nærri skynfærum
mínum. En myndir þeirra eru í minni mér. Eg nefni líkamlegan sársauka. Ekki
er hann í mér, þegar ég kenni engrar þrautar. En væri ekki mynd hans í minni
mínu gæti ég ekkert um hann sagt né með orðum greint þraut frá nautn. Eg
nefni heilsu líkamans, þegar ég er heill líkamlega. Þá er það að vísu í mér,
sem ég nefni. En væri ekki mynd þess einnig í huga mér gæti ég samt með
engu móti komið því fyrir mig, hvað ómur þessa orðs merkir. Og ekki gætu
sjúkir vitað, hvað verið er að segja, þegar heilsa er nefnd, ef afl minnisins
276