Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1998, Blaðsíða 234
Pétur Pétursson
og mikilvægi hans verður því meiri sem samfélögin eru margbrotnari og
flóknari.28
Sálin, guðsneistinn og eilífðareðlið
Sál mannsins er kjarni hans, innsta eðli og annarrar veru en holdið sem tilheyr-
ir hinu dýrslega eðli samkvæmt kenningum spíritista. Mönnum er fyrirhugað
fyrir tilstilli góðra fyrirmynda og kærleiksríkrar aðstoðar þessa heims og ann-
ars að vinna bug á lágum hvötum sínum. Miðilsfundir sem Haraldur tók þátt
í gengu oft út á það að tala um fyrir og hjálpa illum (forhertum) öndum fram-
liðinna og fá þá til að iðrast og leita fyrirgefningar á því illa sem þeir höfðu
gert öðrum í jarðlífinu — og þiggja sjálfir fyrirgefningu annarra. Þetta kostar
baráttu en markmið hennar er að sálin nái að þroskast og birta guðlegt eðli
sitt sem felst í því sem Haraldur kallar guðsbarnarétt allra manna.
Eina prédikun sína, þar sem Haraldur leggur út af Rómverjabréfinu (7, 18-
24), nefnir hann Baráttan í oss og sú barátta er milli holds og anda.29 Har-
aldur var bindindismaður og var virkur félagi í Góðtemplarareglunni. Þær
fýsnir sem hann nefnir oftast í baráttunni milli holds og anda eru áfengissýkin,
lauslæti, græðgi, lygi og alvörulausar skemmtanir. Sál mannsins er eilíf og
Haraldur leiðir að því líkum að hún eigi sér fortilveru hjá Guði og vitnar í
því sambandi til Hebreabréfsins.30 Sálin er guðlegrar ættar og snýr aftur til
upphafs síns eftir að hafa þroskast í átökum og þjáningum jarðlífsins. Haraldur
nefnir þessa eiginleika mannssálarinnar um leið og hann ræðir um fortilveru
Krists sem var í dýrð hjá föðurnum áður en heimurinn varð til. Fagnaðarboð-
skapur Kristindómsins er sá að maðurinn er umvafinn kærleika Guðs og það
er ást Guðs á manninum sem gerir það að verkum að hægt er að tala um neista
Guðs í manninum. Guð á frumkvæðið en trúin á Jesú Krist kveikir þennan
neista. „Alt það, sem í sannleika er mannlegt, hlýtur að vera runnið frá eðli
Guðs.“31 „Guðseðlið birtist í takmarkaðri og endanlegri mynd í manninum,
en manneðlið í ótakmarkaðri og óendalegri mynd í Guði. Og fyrir því sýnir
hinn fullkomni maður oss hið mesta og besta, er vér fáum vitað um Guð.“32
Sálin er eilíf og hún á hlutdeild í dýrð Guðs sem birtist á afgerandi hátt í
upprisu Jesú Krists. Þar er dauðinn sigraður en ríki Guðs tekur við. Haraldur
28 Emile Durkheim. De la division du trivail social, 1893, og Lesformes élémentaires de la
vie réligieuse, 1912.
29 Árin og eilífðin [1] 1920, s. 366.
30 Árin og eilífðin [1] 1920, s. 387.
31 Árin og eilífðin [1] 1920, s. 397.
32 Árin og eilífðin [1] 1920, s. 386-387, 397.
232